Hlakkar til að borða sviðahaus heima

Gunnar borðar bakkelsi - mynd úr safni.
Gunnar borðar bakkelsi - mynd úr safni. mbl.is/Rósa Braga

Gunnar Nelson hefur verið að heiman í ríflega tvo mánuði, og hefur ekkert hitt son sinn á meðan. Í samtali við MMAFighting.com segir hann best að láta sig hlakka til að hitta hann frekar en að velta sér upp úr söknuði.

„Ég tala reglulega við hann á Skype og fæ Snapchat skilaboð frá móður minni og barnsmóður. Þetta er alltaf erfitt, en maður þarf að horfa fram á veginn og vera bara spenntur að sjá hann,“ segir Gunnar.

Hann er nú staddur í Las Vegas, þar sem hann keppir við hinn stóra og höggþunga Brandon Thatch annað kvöld. Hann er þar í góðu yfirlæti í 1.100 fermetra glæsihýsi ásamt hinum írska Conor McGregor, vinum og þjálfurum. Áður dvaldi hann í Mexíkó við æfingar. Aðspurður hvort hann hlakki til að fara heim og borða sviðahaus eftir lúxusdvöl í Vegas segir hann svo vera. „Ég er mjög spenntur að fara heim og borða kindahaus.“

Gunnar ásamt hinum írska Conor McGregor.
Gunnar ásamt hinum írska Conor McGregor. Instagram

Sonurinn byrjaður að ganga

„Ég sá mynd af syni þínum borða kindahaus um daginn, það var mjög óþægilegt,“ segir spyrillinn Ariel Helwani.

„Já, ég skil að það sé ekki alveg ykkar tebolli. Ég get hins vegar ekki beðið eftir að hitta strákinn minn. Þegar ég fór var hann skríðandi, en nú gengur hann um allt,“ segir Gunnar.

Hann segir bandarískar flugeldasýningar ekki heilla mikið, en spyrillinn vakti athygli á mynd af Gunnari frá 4. júlí þar sem hann situr í heitum potti og horfir á símann sinn meðan glæsileg flugeldasýning er í gangi í tilefni þjóðhátíðardags Bandaríkjanna.

„Ef ég á að vera hreinskilinn, þá fannst mér þetta ekkert svakalegt. Einn dag á ári erum við með risa flugeldasýningu á Íslandi. Ég bjóst við að þessi yrði hundrað sinnum stærri, því þú veist, þetta er Ameríka! Þetta var hins vegar ekkert svo stórfenglegt,“ segir Gunnar.

Gunni aðeins farinn að passa línurnar enda vigtun eftir viku! (One week until weigh ins) #gunnarnelson #mjolnirmma #macmansion #ufc189 @gunninelson

A photo posted by Jón Viðar Arnþórsson (@jon_vidar_arnthorsson) on Jul 3, 2015 at 11:10pm PDT

Lexía frekar en svekkelsi

Síðasti bardagi Gunnars var við Bandaríkjamanninn Rick Story. Gunnar þurfti að lúta í lægra haldi fyrir Story í fyrsta sinn í fjórtán bardögum, en spurður um tapið kveðst hann hafa nýtt bardagann sem lexíu og uppbyggingu frekar en að svekkja sig á því.

„Ég hef tapað í íþróttum áður og veit hvernig það er. Þetta voru fimm lotur og ég lærði mikið á þeim. Það sem ég tek út úr þessu er miklu frekar allar lexíurnar sem þar lærðust heldur en tapið sjálft.“

Gunnar átti að upphaflega að keppa við hinn breska John Hathaway í bardaga helgarinnar, en honum var síðan skipt út fyrir Thatch. Hann segir skiptingar af þessu tagi ekki skipta miklu máli, enda sé mikilvægt að vera einfaldlega klár í bardaga.

„Bardagi fyrir mér er eitthvað ófyrirséð. Í nútímasamfélagi er hægt að fylgjast talsvert með andstæðingi sínum og lesa hann, en bardaginn er meira en það. Þegar ég var lítill vildi ég læra að berjast og verja mig, en þegar þú lendir í slag veistu ekkert um þann sem þú lendir í. Ég sætti mig við að vita ekki allt um andstæðing minn, ég fer einfaldlega þarna inn og við berjumst.“ Viðtalið má sjá í heild sinni hér að neðan.

Skemmtilegt viðtal við Gunnar Nelson

Posted by Mjölnir MMA on Thursday, July 9, 2015
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert