Sigur fyrir tjáningarfrelsið

Úlfar Þormóðsson (t.h.) skoðar 2. tölublað Spegilsins frá 1983 sem …
Úlfar Þormóðsson (t.h.) skoðar 2. tölublað Spegilsins frá 1983 sem varð aðgengilegt í dag ásamt Ingibjörgu Steinunni Sverrisdóttur, landsbókaverði, (t.v.) og Erni Hrafnkelssyni, starfsmanni bókasafnsins. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Opnað hefur verið fyrir aðgang að 2. tölublaði Spegilsins frá 1983 á tímarit.is og á Landsbókasafni. Úlfar Þormóðsson, ritstjóri blaðsins, mætti á bókasafnið í dag og gluggaði í ritið sem þótti vera guðlast á sínum tíma. Hann segir birtingu þess nú sigur fyrir tjáningarfrelsið.

Lögbann var sett á dreifingu þessa tölublaðs skopritsins og aukablaðs vegna guðlasts og kláms sem yfirvöld töldu sig finna á síðum þess. Úlfar var meðal annars dæmdur fyrir guðlast og dæmdur til að greiða sekt vegna þessa. Blaðið hefur verið óaðgengilegt á Landsbókasafni í 32 ár þar sem eintök af því hafa verið á bak við lás og slá.

Þar til í dag. Landsbókavörður tók þá ákvörðun að gera blaðið aðgengilegt í kjölfar þess að Alþingi nam ákvæði hegningarlaga um guðlast úr gildi í síðustu viku. Úlfar mætti á bókasafnið í dag og fékk að skoða eintök af blaðinu sem höfðu þá verið tekin úr geymslu.

Við það tækifæri sagði Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir, landsbókavörður, að hvers kyns ritskoðun væri eitur í beinum bókavarða og því hafi hún vilja birta blaðið. Úlfar bauð starfsmönnum bókasafnsins að heimsækja þau í Hegningarhúsið á Skólavörðustíg ef þeim yrði stungið inn fyrir að birta blaðið.

Arfleið frá alræði kirkjunnar manna yfir þjóðinni

„Þetta er sigur fyrir tjáningarfrelsið. Ég finn svo sem ekki fyrir neinni sigurgleði út af þessu en ég er hins vegar mjög ánægður með að það sé búið að opna þetta. Menn átta sig kannski á núna að það var svo sem aldrei nein ástæða til að gera þetta. En það var gert, nú er þetta opið og ég er ánægður með það,“ segir Úlfar í samtali við blaðamann mbl.is.

Lögbannið varð til þess að það fjaraði undan rekstri Spegilsins og aðeins eitt tölublað kom út til viðbótar áður en það lagði upp laupana. Úlfar segir að það hafi ekki verið sektin sem slík sem kippti stoðunum undan rekstrinum heldur tekjutapið. Til hafi staðið að innheimta sölutekjur af 1. tölublaði þess árs þegar 2. tölublaðinu væri dreift. Ekkert hafi  hins vegar orðið úr því vegna lögbannsins.

Úlfar segir að lögin gegn guðlasti hafa verið arfleið frá alræði kirkjunnar manna yfir þjóðinni og furðulegt hvað þau hafi hangið lengi inni. Engar athugasemdir yrðu gerðar við birtingu þess sem birtist í Speglinum ef blaðið kæmi út í dag. Hann telur að lögbannið hafi haft tímabundin áhrif á tjáningu í landinu.

„Þetta hefur haft varnaðaráhrif fyrir borgarastéttina þannig að menn fóru ekki eins að henni í einhvern tíma á eftir,“ segir Úlfar.

Enn þann dag í dag þekki hann þó býsna marga sem finnst það ekki undir neinum kringumstæði við hæfi að hæðast að trúarbrögðum, sérstaklega strangtrúaðir lúthersmenn og þeir fáu kaþólikkar sem eru í landinu.

„Þeim finnst það bara ekki við hæfi ennþá. þetta er eitthvað sem þeim er heilagt. það sem mönnum finnst heilagt, finnst þeim að eigi ekki að gantast með, hvað þá að svívirða það,“ segir Úlfar.

2. tölublað Spegilsins frá 1983 á tímarit.is

Fyrri fréttir mbl.is:

Guðlastsblaðið birt í dag

Aðgangur að tölublaði Spegilsins enn lokaður

Lok, lok og læs. Þessi skilaboð blöstu við þeim sem …
Lok, lok og læs. Þessi skilaboð blöstu við þeim sem reyndu að fletta upp 2. tölublaði Spegilsins frá 1983 á timarit.is þangað til í dag. Skjáskot af timarit.is
Í stað 2. tölublaðs Spegilsins árið 1983 var þetta blað …
Í stað 2. tölublaðs Spegilsins árið 1983 var þetta blað inni í hefti sem geymir blaðið á Landsbókasafninu. Blaðið fær að halda sér til að sögu lögbannsins verði haldið til haga. mbl.is/Kjartan
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert