Reynir Pétur ruddi hringveginn

Fólk fagnaði Reyni um allt land.
Fólk fagnaði Reyni um allt land. Ljósmynd/Morgunblaðið

Reynir Pétur Ingvarsson gekk hringveginn um landið fyrir 30 árum, sumarið 1985. Hann gekk 1.417 kílómetra en tilgangur ferðarinnar var að safna fyrir byggingu húss fyrir íbúa á Sólheimum í Grímsnesi en Reynir var íbúi þar. Almenningur og fyrirtæki styrktu Reyni meðan á göngunni stóð.

Reynir Pétur fagnar í Reykjavík eftir að hafa gengið hringinn …
Reynir Pétur fagnar í Reykjavík eftir að hafa gengið hringinn í kringum landið. Ljósmynd/Morgunblaðið

Hringferð Reynis tók nákvæmlega einn mánuð og söfnuðust fimm milljónir meðan á göngunni stóð. Reyni leið vel á göngunni og sagði alla gönguskó sína heila en kílóin væru ekki öll á sínum stað. „Ef einhver hefur áhuga getur hann safnað þeim saman á hringveginum!“ sagði Reynir við Morgunblaðið þegar göngunni var lokið. Milljónirnar fimm sem Reynir safnaði væru 38,3 milljónir í dag, hefðu 7,6-faldast.

Wow hjólreiðakeppnin nýtur mikilla vinsælda og safnar miklu fé.
Wow hjólreiðakeppnin nýtur mikilla vinsælda og safnar miklu fé. mbl.is/Þorgeir

Gengið og hjólað hringinn

Síðan þá hafa fjölmargir farið hringinn í kringum landið og safnað áheitum fyrir hin ýmsu málefni. Fólk hefur hlaupið, gengið, hjólað og róið í kringum landið. Nýjasta dæmið eru menn sem fara hringinn á traktorum. 

Hjól­reiðakeppn­in WOW Cyclot­hon hefur verið haldin árlega frá 2012. Þá keppir fólk í liðum um hverjir eru fljótastir að hjóla hringinn og safna styrkjum fyrir góð og gild málefni. Í ár söfnuðust 21,7 milljónir króna og rennur peningurinn til styrktar uppbyggingu batamiðstöðvar á Kleppi.

Guðni Páll Viktorsson fór hringinn á kajak.
Guðni Páll Viktorsson fór hringinn á kajak. mbl.is/Halldór

3 mánuði á kajak

Sumarið 2013 réri Guðni Páll Victorsson hringinn kringum landið, rúma 2.000 kílómetra á kajak. Ferðin tók rúma þrjá mánuði og sagðist Guðni aldrei hafa lent í lífsháska en oft verið nálægt því. Tilgangur ferðarinnar var að safna fé til styrktar Samhjálp. Hann var valinn Vestfirðingur ársins 2013 fyrir ótrúlegan dugnað og fyrir að hafa komið Vestfjörðum á kortið.

Tékkneski hlauparinn Rene Kujan ánægður eftir að hafa lokið sínu …
Tékkneski hlauparinn Rene Kujan ánægður eftir að hafa lokið sínu ofurhlaupi. mbl.is/Eggert

Úr lífshættu í maraþon

Árið 2012 lagði tékk­neski hlaup­ar­inn René Kuj­an í langt og strangt hlaup. Hann hljóp hringinn í kringum landið á 30 dögum og lagði að baki rúmlega maraþon á dag. Rene lenti í al­var­legu bíl­slysi árið 2007. Í fyrstu var hon­um vart hugað líf og síðar var bú­ist við því að hann yrði bund­inn við hjóla­stól til æviloka. Með réttri meðhöndl­un náði hann sér aft­ur á strik. Hann stóð fyrir söfnun fyrir íþróttafélag fatlaðra á Íslandi og í Prag.

Golfkúlur í allar áttir

Kiw­an­is­menn fóru athyglisverða leið árið 2012 þegar þeir slógu golfbolta hringinn! Und­ir nafn­inu Is­golf 2012 söfnuðu Kiw­an­is­menn áheit­um til góðgerðarmála á sleg­in högg í hring­ferðinni, en reiknað var með að þau yrðu ekki færri en 9.500, sem sam­svar­ar því að spila 300 golf­hringi. Ferðin tók rúmar tvær vikur.

Einar Þ. Samúelsson hjólaði hringinn árið 2011.
Einar Þ. Samúelsson hjólaði hringinn árið 2011. Ljósmynd/Morgunblaðið

„Á sumu má sigrast“

Einar Þ. Samúelsson hjólaði hringinn sumarið 2011. Hann gerði það til stuðnings fjöl­skyldu sem hef­ur glímt MND-hrörn­un­ar­sjúk­dóm­inn. Verk­efnið nefn­ist „Á sumu má sigr­ast“.
„Auk þess gríðarlega áfalls sem sjúk­dóm­ur­inn er, þá er bar­átt­an við hann kostnaðar­söm og við þetta bæt­ast pen­inga­á­hyggj­ur. Þess vegna langaði mig til þess að gera eitt­hvað til að verða að liði.“ Þetta sagði Ein­ar Þ. Samú­els­son, tæp­lega fer­tug­ur fjöl­skyldumaður úr Kópa­vogi, áður en hann lagði af stað í ferðina. Við ferðalok sagði Einar ferðina hafa reynt á en allt tókst þetta á endanum.

Jón Eggert hitti goðsögnina sjálfa, Reyni Pétur og Hanýju Maríu, …
Jón Eggert hitti goðsögnina sjálfa, Reyni Pétur og Hanýju Maríu, konu hans á meðan göngunni stóð. Ljósmynd/Morgunblaðið

Gekk 3.446 kílómetra

Árið 2005 lagði Jón Eggert Guðmundsson af stað í Strandvegagönguna og var hún farin til styrktar Krabbameinsfélaginu. Ekki er vitað til þess að nokkur annar hafi gengið lengri vegalengd um landið, en hans markmið var að ganga því sem næst alla strandvegi landsins en ekki halda sig við þjóðveg númer 1. Hann lauk göngunni á tveimur sumrum, fyrra árið gekk hann frá Hafnarfirði til Egilsstaða og lagði að baki tæplega 990 km. Sumarið 2006 lauk hann svo hringnum umhverfis landið og hafði þá gengið 3.446 km. Gangan samsvarar vegalengd 82 maraþonhlaupa. 

Ljóst er að fleiri hafa farið hringinn og safnað áheitum en þeir sem eru upptaldir hér. Hringferð sem reynir á, bæði líkamlega og andlega, fær oftast mikla athygli almennings og nær að safna peningum handa málefnum sem þurfa á stuðningi að halda. Enginn þeirra sem hafa fetað í fótspor Reynis Péturs virðist þó ná jafnmikilli almannahylli og hann fyrir 30 árum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert