Nýtt akstursgjald gegn utanvegaakstri

Utanvegaakstur hefur lengi verið vandamál og með auknum fjölda ferðamanna …
Utanvegaakstur hefur lengi verið vandamál og með auknum fjölda ferðamanna verður hættan á slíku athæfi meiri, enda þekkja margir ekki reglur um slíkt hér á landi. Ljósmynd/Arnar Hafsteinsson

Skipta ætti landinu upp í ökusvæði þar sem hálendið og viðkvæmir vegir væru eitt ökusvæði og láglendið annað ökusvæði. Með þessu móti væri hægt að krefjast þess að erlendir ökumenn sem ætluðu sér að keyra á hálendinu, en væru ekki vanir íslenskum aðstæðum og náttúru þyrftu að fá sérstök ökuréttindi sem heimiluðu akstur þar. Meðal annars ættu þeir að horfa á stutt myndskeið með fræðslu um utanvegaakstur og slíkt. Með þessu mætti draga verulega úr fjölda tilfella um utanvegaakstur og fá inn tekjur sem nýta mætti við aukna fræðslu og eftirlit á hálendinu. Þetta segir Páll Jónsson, leiðsögumaður og eigandi Experience Iceland og lögreglumaður.

Utanvegaakstur algengt umræðuefni í ferðaþjónustunni

Páll segist telja utanvegaakstur nokkuð stórt vandamál hér á landi, en bætir þó við að ekki þurfi marga til þannig að vandamálið verði alvarlegt. Bendir hann á að það geti tekið hundruð ára fyrir slæm sár að gróa fullkomlega og nefnir í því samhengi þann mosa sem hefur verið plokkaður úr hlíðinni nálægt Litlu kaffistofuna við Suðurlandsveg. Það sár hafi verið marga áratugi að gróa og enn sé talsvert eftir.

Hann segir þetta málefni vera mjög algengt umræðuefni meðal leiðsögumanna og ökumanna í ferðaþjónustunni og af þeim samræðum megi heyra að menn séu mjög áhyggjufullir um það sem hefur verið í gangi undanfarin ár og hvað geti gerst á næstu árum.

Páll starfar bæði sem leiðsögumaður og lögreglumaður.
Páll starfar bæði sem leiðsögumaður og lögreglumaður. Mynd/Páll Jónsson

Mótorhjólamaður í miðju brúðkaupi

Segir Páll að umræðunni sé oft skipt upp í utanvegaakstur á gróðursnauðu hálendinu eða keyrslu á söndum nálægt sjó. Þannig telji flestir ef ekki allir rangt að keyra utan vega upp á hálendi, en svo telji sumir ekkert tiltökumál að spæna upp fjörur, t.d. Í Reynisfjöru eða við Jökulsárlón. Segir Páll að margir svari því til að fjaran jafni sig í næsta roki eða á nokkrum dögum. Staðreyndin, að sögn Páls, er þó sú að allir þeir sem komi þarna á þeim tíma upplifi þetta sem útkeyrðan stað í stað óspilltrar náttúru.

Nefnir hann að í fyrra var hann á ferð í Reynisfjöru og sá að inn í hellinum var í gangi brúðkaup, þar sem sparibúið amerískt par var að gifta sig með íslenskum presti og öllu tilheyrandi. Á sama tíma var svo einstaklingur keyrandi ströndina fram og til baka á torfæruhjóli, allt upp að hellinum. Segir Páll að þarna sé gert ráð fyrir að bílar og ökutæki leggi á þar til gerðu bílastæði og að svona umferð eyðileggi upplifun annarra, þó að þetta brúðkaup hafi væntanlega verið stærsta dæmið um slíkt.

Margir vita ekki af reglum um utanvegaakstur

Páll telur að flestir ferðamenn, bæði innlendir og erlendir, fari eftir reglum og njóti náttúrunnar án þess að keyra utan vega. Aftur á móti sé minnihluti sem eyðileggi fyrir og þá sé í flestum tilfellum um að ræða fólk sem keyri utanvegar í einhverju bríaríi og viti ekki fullkomlega hvað það sé að gera eða hvað megi. Þannig sé algengasta afsökun erlendra ferðamanna að þeir hafi ekki vitað af banni við utanvegaakstri.

Þannig hafi hann til að mynda rekist á erlenda ferðamenn nýlega á slökkviliðsbíl sem þeir höfðu keyrt um landið. Þar sem Páll hitti á þá voru þeir að njóta náttúrunnar rétt hjá skilti sem bannaði allan akstur utan malarstæðisins sem var rétt hjá, en skiltið var eingöngu á íslensku. Segir Páll allt of algengt að ferðamenn ferðist svona um, án þess að þekkja reglur eða skilja leiðbeiningar, bæði á grasblettum í alfaraleið eða á hálendinu þar sem það taki mun lengri tíma fyrir sárin að gróa. Þá sé fjölgun stórra trukka eins og eru á myndinni talsverð, en hann segir þessa þungu bíla geta gert mun verri sár en þá sem léttari eru.

Þessir ferðamenn ákváðu að leggja á grasbalanum rétt fyrir aftan …
Þessir ferðamenn ákváðu að leggja á grasbalanum rétt fyrir aftan skiltið sem segir „akstur utanvega bannaður.“ Mynd/Páll Jónsson

Hugmyndin um nokkur aksturssvæði

Hugmynd Páls til að sporna við þessu er að skipta landinu upp í tvö eða fleiri aksturssvæði. Þannig væri láglendið almennt svæði, en hálendið og viðkvæmir staðir gætu fallið undir einn eða fleiri sérflokka. Til að mega keyra á slíku svæði þyrfti ökumaður að horfa á fræðsluefni og fá sérstakt ökuleyfi fyrir þessi svæði.

Tekjur fyrir aukið eftirlit og landvörslu

Áætlar Páll að fjöldi þeirra sem vildu keyra á hálendinu væri allt að 100 þúsund. Með því að láta þetta ökuleyfi kosta 500 til 3.000 krónur mætti því fá 50 til 300 milljónir og með hærra gjaldi mætti hækka þessa upphæð. Með þessu væri kominn grunnur undir aukna fræðslu til ferðamanna, þeir væru búnir að staðfesta að þeir hefðu fengið upplýsingar um skaðsemi utanvegaaksturs og þá væri hægt að nýta fjármunina í aukið eftirlit á hálendinu og fjölgun landvarða.

Dæmi um ökumann sem ók utanvegar við Lakagíga í fyrra. …
Dæmi um ökumann sem ók utanvegar við Lakagíga í fyrra. Því miður er of mikið um að ferðamenn telji í lagi að keyra óhindrað þar sem ekki eru vegir. Í fæstum tilfellum næst í gerendur, en stundum lenda þeir í því að festast alveg og enda með að kalla á aðstoð. Ljósmynd/ Þorsteinn M. Kristinsson

Segir Páll að vandamálið í dag varðandi eftirlit og vörslu á hálendinu sé að þeir aðilar sem sjái um það í dag séu í flestum tilfellum björgunarsveitir og landverðir. Þrátt fyrir gott og þarft hlutverk, þá séu hvorki björgunarsveitarmenn né landverðir með sama valdhlutverk og lögreglan og það komi oft fyrir að það vanti þegar brot eiga sér stað á hálendinu.

Segir Páll að full mönnun lögreglu hálfan sólarhring í fjóra mánuði á ári á tveimur bílum gæti kostað um 40 til 50 milljónir og því ætti ökuleyfisgjald sem þetta auðveldlega að geta borgað sig upp og svo bætt við fjármunum til landvörslu og björgunarsveita í þeirra starfi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert