Gestir Þjóðhátíðar í Vestmannaeyjum geta ekki lengur tekið rúnt um eyjuna á bekkjabílum eins og hefur tíðkast. „Það fæst ekki leyfi fyrir þessum bílum hjá yfirvöldum. Þetta hefur verið keyrt á undanþágum allan tímann og nú er mál að linni að mati embættis lögreglustjóra og lítið sem við getum gert í því,“ segir Hörður Orri Grettisson, sem á sæti í þjóðhátíðarnefnd, við mbl.is.
„Við ætlum að leysa þetta með fjórum strætisvögnum sem munu keyra um bæinn,“ bætir Hörður við. „Þetta hefur engin áhrif á fólksflutning en auðvitað er leiðinlegt að sjá bekkjabílana hverfa á braut. Þeir eru búnir að vera hérna í tugi ára. Sérstaklega er þetta súrt fyrir okkur Eyjamennina sem höfum alist upp við þá.“
Kemur fram í tilkynningu frá þjóðhátíðarnefnd vonandi muni þetta fyrirkomulag henta hátíðinni vel og eru gestir beðnir að taka þessum breytingum vel enda er þetta þáttur í því að halda áfram að þróa hátíðina. Það hefur lengi legið fyrir að bekkjabílar gætu ekki ekið fólki til frambúðar og nú er komið að því að breyting verður og er það trú þjóðhátíðarnefndar að hún verði til góðs bæði fyrir farþega og gangandi vegfarendur.
Hörður segir bílana oft hluta af stemningu gesta Þjóðhátíðar. „Það hefur örugglega verið hluti af stemningu fólks sem kemur hingað; að taka einn bekkjabílarúnt.“