„Við erum eiginlega skák og mát“

Skíðasvæði Siglfirðinga.
Skíðasvæði Siglfirðinga. mbl.is/Sigurður

Gunnar Birgisson, bæjarstjóri Fjallabyggðar, segir bæinn hafa reynt að fá fjármagn til að færa þann hluta skíðasvæðisins á Siglufirði sem til þessa hef­ur verið rekið á und­anþágu vegna snjóflóðahættu. Ekkert hafi gengið í þeim efnum. „Við höfum reynt að fá fjármagn hjá Vegagerðinni en það hefur ekki gengið. Það liggur tvennt í þessu; það þarf að leggja veg upp eftir sem kostar 130 milljónir og síðan þarf að færa lyfturnar sem kostar 70 milljónir, þannig að samtals eru þetta 200 milljónir,“ segir Gunnar við mbl.is.

Okkur var bent á að Ofanflóðasjóður gæti fjármagnað framkvæmdirnar en þeir höfnuðu þessu. Okkar rök hafa verið að mannabústaðir og frístundabyggð séu partur af byggðinni. Allt í einu komu tveir menn frá Veðurstofunni og dæmdu gamla skíðasvæðið hættusvæði. Við erum eiginlega skák og mát í málinu.

Gunnar segir fordæmi fyrir því að Ofanslóðasjóður styrki bæjarfélög í svipuðum aðstæðum. „Við teljum að sjóðurinn hafi fjármagnað endurbyggingu skíðamannvirka á Ísafirði þegar snjóflóð féll þar.“ Bæjarfélögin standi ekki ein undir slíkum kostnaði. 

„Við erum á undanþágu núna þannig að það er ljóst að þeir geta lokað þessu hvenær sem er. Við vitum ekkert hverju getur verið lokað en menn loka því sem þeir telja hættulegt. Kannski loka þeir öllu saman.

Gunnari finnst þetta mikið áhyggjuefni fyrir Fjallabyggð. „Þess vegna bókuðum við þetta. Við höfum reynt að tala við þá sem hafa fjármagnið en verður ekkert ágengt með það og höfum því bullandi áhyggjur. Við erum að reyna að byggja bæinn upp sem ferðamannastað, bæði á sumrin og veturna, eins og hann var. Þetta er því mjög vont mál.“

Skíðasvæðinu á Siglufirði lokað?

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert