Bandalag háskólamanna hefur áfrýjað niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur, sem kveðinn var upp í dag, til Hæstaréttar. Með því vonast félagsmenn BHM að Hæstiréttur standi vörð um stjórnarskrárvarinn rétt þeirra til samnings- og verkfallsréttar, að því er segir á vef bandalagsins.
Óskað hefur verið eftir flýtimeðferð í Hæstarétti.
Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag íslenska ríkið af kröfu BHM.
Var kröfu BHM um að félagsmönnum þess sé heimilt að efna til verkfalls og að ákvörðun gerðardóms ráði ekki kjörum þeirra hafnað.
BHM stefndi ríkinu vegna lagasetningar, sem var samþykkt á Alþingi hinn 13. júní síðastliðinn, sem bannar verkfallsaðgerðir félagsmanna BHM.
Héraðsdómi Reykjavíkur þótti ekki efni til að hnekkja því mati löggjafans að ríkir almannahagsmunir og nauðsyn hafi leitt til þess að tímabundið hafi þurft að banna verkfallsaðgerðir félagsmanna Bandalags háskólamanna.