Eins og margir hafa tekið eftir á ferð sinni um höfuðborgina í morgun eru strætóskýli Reykjavíkur nú skreytt stoltum druslum. Veggspjöldunum er ætlað að minna á Druslugönguna 2015 sem fram fer laugardaginn 25. júlí en þau prýða þjóðþekktir einstaklingar í bland við fólk sem brennur fyrir málstaðnum. Á strætóskýlunum eru meðal annars Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, Magga Stína, tónlistarkona og Alda Villiljós, listamaður. Öll plakötin má sjá hér
Í fréttatilkynningu frá skipuleggjendum Druslugöngunnar segir að með þessu vilji þeir hvetja fólk til að mæta í gönguna og taka afstöðu gegn kynferðisofbeldi. Yfirlýst markmið göngunnar er að færa ábyrgð kynferðisglæpa af þolendum og yfir á gerendur og ítreka að klæðnaður, hegðun eða fas þolenda er aldrei afsökun fyrir slíkum glæpum. Segja skipuleggjendur að þátttakendur í Druslugöngunni séu þverskurður íslensks samfélags og að allir þeir sem sýni í verki samstöðu með þolendum kynferðisofbeldis séu druslur.
„Því enginn, sama hvernig hann klæðir sig eða hegðar ber ábyrgð á ofbeldi sem hann verður fyrir. Við eigum okkur sjálf og erum að taka orðið úr höndum þeirra sem nota það til að orsaka skömm og vanlíðan.“
Yfir 3.000 manns hafa boðað þátttöku sýna í Druslugöngu ársins en skipuleggjendur vonast til að metfjöldi náist með yfir 20 þúsund þátttakendum.
„Síðustu vikur og mánuði hefur ótrúlegur fjöldi einstaklinga stigið fram og skilað skömminni, í eitt skipti fyrir öll. Hver einasta manneskja sem stendur upp og tekur afstöðu breytir samfélaginu. Fókusinn er ekki lengur á þolendur heldur er loksins búið að beina kastljósinu á gerendur. Sú bylting hefur hreyft við öllu samfélaginu,“ segir í tilkynningu Druslugöngunnar.
„Þess vegna eru einkennisorð göngunnar í ár „Ég mun ekki þegja“ og „Ég mun standa með þér“. Með því orðalagi er einstaklingurinn að gefa loforð fram í tímann sem við teljum gríðarlega mikilvægt. Við í sameiningu sköpum samfélag sem stendur upp með þolendum og gerir þeim kleift að segja sína sögu, skammarlaust.“
Druslugangan verður gengin þann 25. Júlí kl. 14:00 frá Hallgrímskirkju. Gengið verður í átt að Austurvelli þar sem við taka ræðuhöld og tónleikar. Friðrik Dór, Úlfur Úlfur, Boogie Trouble og Mammút munu meðal annars spila og verða kynnar og ræðuhaldarar kynntir til leiks þegar nær dregur göngu.
„Við hvetjum alla til að mæta og ganga fyrir breyttu samfélagi laust við ofbeldi og skömm. Taktu afstöðu – vertu drusla!“
Loks hvetja skipuleggjendur göngunnar alla til að sýna afstöðu með því að drusluvæða forsíðumyndirnar sínar á Facebook, sem má gera hér.