Flutti frá Frankfurt til Djúpuvíkur

Claus í gömlu síldarverksmiðjunni
Claus í gömlu síldarverksmiðjunni Ljósmynd/Ágúst Atlason

„Líklega var „þetta reddast“ orðasambandið sem ég heyrði mest eftir að ég kom til Íslands. Það tók Þjóðverja úr ströngu reglu- og skipulagssamfélagi smá tíma að venjast íslensku leiðinni við rekstur,“ segir Þjóðverjinn Claus Sterneck. Claus heillaðist af Íslandi, og þá sérstaklega þorpinu Djúpuvík á Ströndum, eftir fyrstu heimsókn sína til landsins í ágúst árið 2003. Á næstu árum gerði hann sér reglulega ferð til Djúpuvíkur og ekki leið á löngu þar til hann var kominn með sumarstarf á hótelinu á staðnum. Í dag býr Claus á Íslandi, vinnur hjá póstinum á veturna, en á Hótel Djúpuvík á sumrin. Staðurinn veitti honum innblástur til að byrja að taka myndir og í dag stundar hann ljósmyndun af kappi.

Frá sýningunni STEYPU
Frá sýningunni STEYPU Ljósmynd/Claus

Setur upp ljósmyndasýningu í síldarverksmiðju

Undanfarin ár hefur hann staðið fyrir ljósmyndasýningunni STEYPU í gömlu síldarverksmiðjunni á Djúpuvík. Þar sýna ljósmyndarar frá öllum heimshornum myndir sínar, en helsta skilyrðið til að fá að sýna er að myndirnar séu teknar á Íslandi. Hann segir þorpið hafa fangað hug sinn við fyrstu sýn.

„Bærinn er svo afskekktur, næstu nágrannar sem búa á svæðinu allt árið eru í átján kílómetra fjarlægð,“ segir Claus um fyrstu upplifun sína af Djúpuvík. „Ég er frá stað í Þýskalandi sem heitir Frankfurt. Þar er umferð, hávaði, ljósmengun og troðningur af fólki allan daginn. Sumarið 2003 var sérstaklega heitt í Þýskalandi, en í Djúpuvík gat ég andað að mér hreinu lofti í fyrsta skipti í margar vikur. Auk þess sá ég norðurljósin í fyrsta sinn.“

Djúpavík úr lofti - hér má sjá bæði síldarverksmiðjuna og …
Djúpavík úr lofti - hér má sjá bæði síldarverksmiðjuna og Hótel Djúpuvík. Ljósmynd/Claus

Eini gesturinn á hótelinu

Claus gisti á Hótel Djúpuvík í fyrstu heimsókn sinni og var þar eini gesturinn í viku. Eftir kynni sín af staðnum ákvað hann að koma aftur ári síðar. Árið 2006 fékk hann síðan starf við að hjálpa til á hótelinu. Hann hafði aldrei starfað á hóteli áður og aldrei eytt löngum tíma utan Þýskalands, en kveðst þakklátur hjónunum Evu og Ásbirni á hótelinu fyrir að veita sér tækifæri til að dvelja þar langdvölum.

Hann er uggandi yfir stórauknum ferðamannastraumi til Íslands undanfarin ár og kveðst óska þess að Djúpavík verði ekki eins þéttsetin ferðafólki og suðurhluti landsins.

„Ég sé sífellt fleiri neikvæðar breytingar. Miðbær Reykjavíkur er að tapa sjarma sínum og breytast í eina stóra „minjagripaverslun með veitingastað inni á hóteli“,“ segir Claus. Að hans mati þarf Ísland að fá að hvíla sig og „anda“.

Frá Djúpuvík
Frá Djúpuvík Ljósmynd/Claus

Hitti eiginkonuna í verksmiðjunni

Claus er 45 ára gamall í dag. Hann er giftur franskri konu, Frédérique sem býr þó í Frakklandi, en þau kynntust fyrst á Djúpuvík árið 2007. „Hún var í skipulagðri ferð í síldarverksmiðjunni, en við hittumst síðan aftur í Reykjavík fjórum árum síðar, árið 2011. Við þurftum hins vegar svolítinn tíma til að finna „okkur“.“

Hann segir markmiðið á STEYPU vera að fanga „raunverulega Ísland“, daglegt líf, íbúa o.s.frv. en ekki bara fossa og fjöll – þó þau fái vissulega einnig að njóta sín. Hann setti fyrstu sýninguna upp árið 2009, en þá voru hans eigin myndir í forgrunni. Árið 2013 kom hann hins vegar af stað sýningu með öðrum ljósmyndurum og hefur hún verið með því sniði undanfarin sumur. Í ár taka níu ljósmyndarar frá sex löndum þátt í sýningunni. Hann segir nafnið STEYPU einfaldlega koma til af byggingarefni verksmiðjunnar. „Síldarverksmiðjan er steypt, og raunar var hún ein stærsta steypta verksmiðja Evrópu á sínum tíma. Nafnið á því vel við.“

Gjögur.
Gjögur. Ljósmynd/Claus

Sköpunargleðin nýtur sín á Íslandi

Sýningin á hug hans allan á sumrin, en hann segir veturna í höfuðborginni einnig ágæta. „Að bera út póst er vissulega ekki draumastarfið mitt. Mér líkar hins vegar vel að dvelja utandyra, sérstaklega á veturna.“ Þá starfar hann í hlutastarfi hjá Listasafni Reykjavíkur, í Hafnarhúsinu, Ásmundarsafni og Kjarvalsstöðum, og líkar nálægðin við listina og fólkið í henni vel.

Aðspurður segist hann ekki hafa hugmynd um hvort hann muni dvelja hérlendis til frambúðar eða halda á aðrar slóðir. „Það er ekkert sem bindur mig á þessari eyju, ég get farið hvenær sem ég vil. Ég hef aftur á móti enga ástæðu til að hverfa á braut. Ég er ánægður hér, á vini og með vinnu. Einna þyngst vegur þó að hér get ég verið skapandi.“

Claus heldur úti heimasíðunni Claus in Iceland, auk Facebook síðu undir sama nafni þar sem fylgjast má með verkum hans og störfum.

Djúpavík að vetri
Djúpavík að vetri Ljósmynd/Claus
Krían er umdeild, en þó uppáhalds fugl Claus að hans …
Krían er umdeild, en þó uppáhalds fugl Claus að hans sögn Ljósmynd/Claus
Claus hefur tekið myndir víða um landið. Hér sést til …
Claus hefur tekið myndir víða um landið. Hér sést til Vestmannaeyja frá Landeyjahöfn. Ljósmynd/Claus
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert