Hjúkrunarfræðingar felldu samninginn

Samningurinn var felldur með miklum meirihluta atkvæða
Samningurinn var felldur með miklum meirihluta atkvæða Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Félagsmenn í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga höfnuðu í dag kjarasamningi félagsins við fjármála- og efnahagsráðherra. Fram kemur í tilkynningu að samningurinn hafi verið felldur með 1677 atkvæðum á móti 219 eða með 88,4% gegn 11,6%. Alls voru 2236 hjúkrunarfræðingar á kjörskrá. Þar af greiddu 1896 atkvæði, eða 84,8%.

Fram kemur í tilkynningunni að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar undirstriki stuðning hjúkrunarfræðinga við áherslur samninganefndar félagsins um að „stjórnvöld verði að bregðast við sanngjörnum kröfum þeirra um að grunnlaun hjúkrunarfræðinga verði sambærileg við aðrar háskólamenntaðar stéttir og markvisst verði dregið úr kynbundnum launamun“.

Afgerandi meirihluti kemur ekki á óvart

„Eftir að hafa heyrst í okkar félagsmönnum undanfarið kemur þetta í raun ekki á óvart,“ segir Ólafur G. Skúlason, formaður félagsins. „Þetta er í takt við þær kröfur sem við gerðum um að unnið yrði að því að brúa launamun kynjanna og hjúkrunarstarfið verði metið til launa í samræmi við önnur sambærileg störf. Þeim markmiðum var ekki náð með þessum samningi.“

Ólafur segir þann mikla meirihluta sem felldi samninginn athyglisverðan, en þó ekki viðbúinn.

 „Miðað við hve margir voru tvístígandi er þetta kannski meira afgerandi en ég hélt. Þetta kemur samt sem áður ekki á óvart,“ segir Ólafur.

Hann segir ekki ljóst hver næstu skref séu í málinu, enda ekki einhugur um það milli samningsaðila. „Ríkið lítur svo á að nú taki gerðardómur við, en við teljum okkur eiga að setjast niður og reyna að ná samningum á nýjan leik. Ég hef ekki heyrt í fulltrúum ríkisins í dag, en ég hef sent á þá fyrirspurn og kannað hver séu næstu skref að þeirra mati. Nú bíð ég bara eftir því svari," segir Ólafur.

Hann segir hjúkrunarfræðinga ekki telja að málið geti farið í gerðardóm lögum samkvæmt og sá sé einnig skilningur lögmanns félagsins. „Ef svo verður munum við væntanlega láta á það reyna fyrir dómstólum.“

Jafnframt var kjara­samn­ing­ar Fé­lags vél­stjóra og málm­tækni­manna (VM) við Sam­tök at­vinnu­lífs­ins, sem und­ir­ritaður var 22. júní s.l., felld­ur í alls­herj­ar­at­kvæðagreiðslu sem lauk á há­degi í gær.

Frétt mbl.is: Felldu nýjan kjarasamning

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert