Íslandsbanki braut gegn lögum

mbl.is/Ómar Óskars­son

Áfrýjunarnefnd neytendamála hefur komist að þeirri niðurstöðu að Íslandsbanki hafi brotið gegn ákvæðum laga um neytendalán nr. 121/1994 með því að tilgreina ekki í lánssamningi bankans við lántakanda, sem tók húsnæðislán hjá forvera bankans, Glitni, árið 2005, við hvaða aðstæður vextir breyttust.

Bankinn braut nánar tiltekið gegn 2. mgr. 6. gr. og 9. gr. laga nr. 121/1994 um neytendalán með skilmála sínum um vaxtaendurskoðun. Í skilmálum lánssamningsins, sem ákvörðun Neytendastofu nr. 44/2014 snéri að, kom fram að bankanum væri heimilt að breyta vöxtum að liðnum fimm árum og svo á fimm ára fresti eftir þann tíma.

Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu að umrætt ákvæði skilmála samningsins væri ekki nægilega upplýsandi um það við hvaða aðstæður vextirnir gætu breyst.

Lántakandinn kvartaði til Neytendastofu undir lok árs 2013. Í kvörtuninni segist hann hafa tekið húsnæðislán hjá Glitni, forvera Íslandsbanka, 23. ágúst 2005. Bankinn hafi tilkynnt kvartanda 24. júlí 2013 um breytingu á vöxtum skuldabréfsins úr 4,15% í 4,8% og vísað til ákvæðis um vaxtaendurskoðun í skilmálum veðskuldabréfsins þar um. 

Lántakandinn taldi að um væri að ræða óréttmæta viðskiptahætti sem stæðust hvorki lög né ákvæði lánssamningsins. Ekki yrði betur séð en að bankinn hafi ætlað sér að nota vaxtaendurskoðunarákvæði lánsins til að knýja fram ýmsar skilmálabreytingar, óskyldar vöxtum, til hagsbóta fyrir bankann.

Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu þann 20. október 2014 að bankinn hefði brotið gegn 6. og 9. gr. laga nr. 121/1994 um neytendalán með því að tilgreina ekki í vaxtaendurskoðunarákvæði lánsins við hvaða aðstæður vextir lánsins breyttust. Íslandsbanki kærði ákvörðun Neytendastofu til áfrýjunarnefndar neytendamála 2. mars 2015 og krafðist þess að ákvörðunin yrði felld úr gildi.

Úrskurðinn má lesa í heild sinni hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert