Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður Bandalags háskólamanna, segir það mjög líklegt að dómi Héraðsdóms Reykjavíkur verði áfrýjað til Hæstaréttar.
„Við munum skoða það mjög vandlega. Það er mjög líklegt að við áfrýjum til Hæstaréttar,“ sagði hún við fjölmiðla eftir að dómurinn var kveðinn upp klukkan tvö í dag.
Frétt mbl.is: Verkfallslögin gilda
Þórunn sagði dóminn koma kannski ekki á óvart, en þetta væri óneitanlega vonbrigði.
„Við vonum að það sé ekki hægt að brjóta gegn mannréttindum launafólks á Íslandi án þess að Hæstiréttur skerist í leikinn,“ sagði hún jafnframt.
Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði stefnda, íslenska ríkið, af kröfu BHM.
Allur málskostnaður fellur niður.
Dómurinn hafnaði kröfu bandalagsins um að félagsmönnum þess sé heimilt að efna til verkfalls og að ákvörðun gerðardóms ráði ekki kjörum þeirra.
Lögin sem bönnuðu verkfallsaðgerðir félagsmanna BHM halda því gildi sínu.
BHM stefndi ríkinu vegna lagasetningar sem bannar verkfallsaðgerðir félagsmanna þess. Málið fékk flýtimeðferð.
Taldi BHM að lagasetningin fæli í sér ólögmætt inngrip í starfsemi frjálsra og löglegra félagasamtaka.
Frétt mbl.is: Verkfallslögin gilda