Í sumar ekur hótel á íslenskum vegum um land allt. Er það hið svokallaða rúllandi hótel. Þar er búið að sameina skoðunarferðir og gistingu en í rútunni eru tuttugu gistipláss.
Þett er í fyrsta skipti sem þessi tegund þjónustu býðst hér á landi. Í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að tvær slíkar rútur eru nú á Íslandi og bjóða hvor upp á sína ferðaleiðina. Annars vegar 15 daga ferð hringinn um landið en í hinni er farið með Norrænu frá Danmörku og til Seyðisfjarðar, þaðan að Öskju, þá til Hornafjarðar og yfir Suðurlandið, loks að Geysi og ferðinni lýkur við Bláa lónið.
Það er ekki ókeypis að fara í þessar ferðir en fyrri ferðaleiðin kostar 2.690 evrur eða um 400 þúsund íslenskar og sú seinni 2.790 evrur eða um 410 þúsund íslenskar.