Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra gerir í pistli á vefsíðu sinni athugasemd við pistlahöfundinn Ólafur Jón Sívertsen sem skrifar reglulega pistla á vefsíðu Hringbrautar.
Þá hafa einnig ítrekað verið skrifaðar fréttir á fréttamiðilinn upp úr pistlum hans. Jóhannes bendir hins vegar á að það er enginn Íslendingur sem ber nafnið í þjóðskrá auk þess sem nafnið finnst hvergi annars staðar á internetinu heldur en á vefsíðu hringbrautar. Myndin af Ólafi Jóni er að auki hvergi annars staðar að finna en á vef Hringbrautar. Í ofanálag gefur Ólafur Jón Sívertsen upp netfangið olafur@hringur.is en það netfang virðist heldur ekki vera til. Lénið hringur.is er vissulega til, en er í eigu Vina Hrings, hollvinasamtaka Barnaspítala hringsins.
Ólafur Jón skrifar reglulega pistla, meðal annars um utanríkismál og gefur hann í skyn að hann hafi heimildarmenn í utanríkisráðuneytinu og „diplómasíunni.“
Jóhannes gerir í lok pistilsins orð rapparans Eminem að sínum og spyr: „Vill hinn raunverulegi Ólafur Jón Sívertsen vinsamlegast standa upp?“
Sigmundur Ernir Rúnarsson, dagskrár- og ritstjóri Hringbrautar segir Ólaf kunna að vera huldumann. „Þetta kann að vera huldumaður.Það eru margir slíkir sem skrifa í blöðin og vefmiðlana. Meðal annars í staksteina,“ segir Sigmundur um skrif Ólafs.
Aðspurður hvort skrif Ólafs séu þá á ábyrgð ritstjórnar Hringbrautar segir Sigmundur svo vera. „Skrif hans eru að sjálfsögðu á ábyrgð ritstjórnar og viðkomandi manns. Ég get ekki sagt þetta með öðrum hætti.“