Stúdentaráð Háskóla Íslands (SHÍ) tekur þar heils hugar undir ummæli menntamálaráðherra um þörf þess að endurskoða útlánakerfi sjóðsins í heild sinni. Stúdentaráð telur að það þurfi að hugsa útlánakerfi LÍN alveg upp á nýtt með Norræn námslánakerfi sem fyrirmynd. Þetta kemur fram í ályktun frá stjórn SHÍ.
Eins og fram kemur í ársskýrslunni endurgreiða einstaklingar sem skulda LÍN undir 2,5 milljónir króna 85 % af láninu á meðan þeir sem skulda LÍN yfir 15 milljónir króna endurgreiða aðeins milli 18-27 % af lánunum sínum. Með öðrum orðum þá afskrifast þau lán sem eru yfir 15 milljónir króna að miklu leyti. Þessar afskriftir eru í raun falinn styrkur. Þetta er sönnun þess að núverandi kerfi getur ekki gengið til lengdar. Þessar afskriftir jukust um 2,8 milljarða króna árið 2013, 7,6 milljarða króna 2014 og halda áfram að aukast. Þetta er rekstrarfyrirkomulag sem engan veginn gengur og fagnar Stúdentaráð þeirri ákvörðun ráðherra að fara í heildarendurskoðun.
Með því að endurskoða útlánakerfið að norrænni fyrirmynd væri hægt að hafa styrkina í boði fyrir alla og gæta jafnræðis. Stúdentaráð telur að hægt sé að nýta útlánakerfi að norrænni fyrirmynd til að styðja nemendur að klára á „réttum“ tíma. Þannig kerfi er notað í Noregi þar sem lánum nemenda er að hluta breytt í styrk útskrifist þeir innan tímaramma. Það hefur aukin þjóðhagslegan ábata þar sem það kostar menntakerfið að hafa nemendur sem taka sér langan tíma við að brautskrást.
Með því að fara að þessari norrænu fyrirmynd væri hægt að breyta framfærsluláninu í styrk og þar með jafna hlut námsmanna óháð því hversu há lán þeir taka.