Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað kröfu Bandalags háskólamanna (BHM) um að félagsmönnum þess sé heimilt að efna til verkfalls og að ákvörðun gerðardóms ráði ekki kjörum þeirra.
Lögin sem bönnuðu verkfallsaðgerðir félagsmanna BHM halda því gildi sínu.
Dómur í málinu var kveðinn upp klukkan tvö í dag.
BHM stefndi ríkinu vegna lagasetningar, sem var samþykkt á Alþingi hinn 13. júní síðastliðinn, sem bannar verkfallsaðgerðir félagsmanna BHM. Málið var þingfest 19. júní og fór aðalmeðferð í því fram 6. júlí síðastliðinn, en málið fékk flýtimeðferð.
BHM gerði þær dómkröfur að stéttarfélögum innan sinna raða yrðu heimilt að efna til verkfalls, þrátt fyrir verkfallslög ríkisstjórnarinnar, og að kjör félagsmanna yrðu ekki afráðin með ákvörðun gerðardóms, eins og lögin kveða á um.
Ástráður Haraldsson flutti málið af hálfu BHM en Einar Karl Hallvarðsson var til varnar fyrir ríkið. Símon Sigvaldason dæmdi í málinu.
Ákveðið var að skipa gerðardóm eftir að Alþingi setti lög á verkföll félagsmanna BHM, sem stóðu í tæpar tíu vikur. Hefur dómurinn frest til 15. ágúst til að ákvarða kaup og kjör félagsmanna.
Að mati BHM felur lagasetningin í sér ólögmætt inngrip í starfsemi frjálsra og löglegra félagasamtaka. Bendir bandalagið á að frelsi stéttarfélaga til að standa að gerð kjarasamninga sé varið af 74. grein stjórnarskrárinnar og að stjórnvöld og löggjafinn hafi afar takmarkaðar heimildir til að hafa afskipti af starfsemi slíkra félaga. Með lagasetningunni hafi ríkið farið út fyrir þær heimildir.
Ríkið hafi einnig brotið gegn rétti aðildarfélaga BHM þannig að fari í bága við ákvæði 11. greinar Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE), en í því ákvæði segir að mönnum sé rétt að mynda félög með öðrum, þar á meðal að stofna og ganga í stéttarfélög til verndar hagsmunum sínum.
Ríkisstjórnin taldi hins vegar að um brýna nauðsyn væri að ræða. Verkfallsaðgerðirnar stefndu almannahagsmunum og réttindum annarra í hættu og ríkisstjórninni hefði verið nauðugur einn kostur að stöðva þær.
Verkföllin hefðu valdið miklu tjóni á mörgum sviðum. Viðræður við félögin hefðu reynst árangurslausar og launakröfur þeirra væru langt umfram þær launahækkanir sem samið var um við stærstan hluta almenna vinnumarkaðarins undir lok maímánaðar.