Meðal þess sem stjórnvöld hafa skoðað til að bregðast við ástandinu á Landspítalanum er að ráða erlenda hjúkrunarfræðinga til starfa.
Sigurður Rúnar Sigurjónsson, forstjóri hjúkrunarheimilisins Eirar, segir erlenda hjúkrunarfræðinga hafa starfað lengi þar. „Víða í kerfinu eru erlendir hjúkrunarfræðingar og sumir orðnir vel talandi, búnir að læra málið. Þetta er búið að vera svona lengi,“ segir Sigurður við mbl.is.
Hann segir að það taki erlenda starfsfólkið oft tíma að ná tökum á tungumálinu. „Það er lögð áhersla á íslensku og þau fá aðstoð við málið. Þegar fólk kemur erlendis frá og er að byrja fer það kannski í umönnun fyrst en það tekur alltaf tíma að komast inn í málið.“
Fólk vinnur sig því upp eftir því sem tungumálakunnáttan eykst. „Fólk fer ekki í stjórnunarstöður hér og talar ekki málið, það er útilokað. Það eru þá aðrir sem taka samskipti við ættingja og aðra en þau geta verið í beinni umönnun.“
Erlendu hjúkrunarfræðingarnir á Eir koma flestir frá Filippseyjum. Sigurður segir þá ekki gangast undir nein próf áður en þeir hefja störf. „Við erum undir eftirliti Landlæknis og við fáum mælingar á okkur þar sem gæðin eru metin af Landlæknisembættinu. Ef við værum með starfsfólk sem réði ekki við verkefnið myndi það fljótlega koma fram í þeim gæðamælingum. Þjónustugæðin hérna eru í góðu lagi hjá okkur.“
Sigurður segir að það sé öllum hollt og gott að hafa fjölbreytni. „Ég er ekki viss um að allt sé best sem er innlent. Það er gott að læra af öðrum.“