Eyjafjörðurinn iðar af lífi

Skipið Ambassador býður upp á hvalaskoðunarsiglingar um Eyjafjörð.
Skipið Ambassador býður upp á hvalaskoðunarsiglingar um Eyjafjörð. Ambassador/Josef Assmayr

Mikið er um hvali í Eyjafirði nú í sumar, einkum hnúfubaka. Að sögn Magnúsar Guðjónssonar, framkvæmdastjóra félagsins Ambassador sem býður upp á hvalaskoðunarferðir í firðinum hafa frá tveimur og allt upp í 12 hnúfubakar sést í öllum ferðum skipsins síðan í maí. 

Segir hann hvalina hafa haldið sig nokkuð innarlega í firðinum og virðist vera mikið æti fyrir þá um allan fjörð. Meira líf sé í firðinum núna en undanfarin tvö ár og mikið af fullt af fugli.

Magnús segir skipið Ambassador henta vel til siglinga. „Þetta er vel hannaður bátur og hentar vel til hvalaskoðunar. Boðið er upp á mjög góða aðstöðu fyrir farþega, bæði upphituð svæði innandyra og eins er útisvæðið mjög gott. Farþegar geta raðað sér upp meðfram síðunni beggja vegna og uppi á efra þilfari þannig að allir hafa gott pláss fyrir sig til að horfa á hvalina,“ segir Magnús.

Er þetta þriðja sumarið sem boðið er upp á hvalaskoðunarferðir með Ambassador og segir Magnús að farþegum hafi fjölgað jafnt og þétt frá upphafi. „Við erum að festa okkur í sessi og það sem skiptir ef til vill mestu er frábært starfsfólk sem tryggir gæði ferðanna, góðar náttúrulega aðstæður og hentugur og góður bátur. 

Ambassador/Þorgeir Baldursson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert