„Ég get ekki séð fyrir mér hvernig við ætlum að að flytja inn hjúkrunarfræðinga inn á þessa deild sem myndu geta sinnt þessum verkefnum sem við erum að sinna hér,“ segir deildarstjóri gjörgæsludeildar Landspítalans í Fossvogi. Þeir þurfi að búa að 2 ára framhaldsmenntun og nauðsynlegt sé að tala íslensku.
Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum, tekur undir að samskipti séu stór þáttur í starfi hjúkrunarfræðinga og segir að það sé ljóst að þjálfun erlendra hjúkrunarfræðinga gæti tekið langan tíma. Þá sé ljóst að ekki sé hægt að reka deildir á borð við gjörgæsludeildina í Fossvogi með óbreyttum hætti verði fjöldauppsagnir að veruleika.
Ef fer sem horfir munu 35 hjúkrunarfræðingar láta af störfum á gjörgæsludeild Landspítalans þann 1. október en Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, hefur opnað á þann möguleika að hingað verði ráðnir erlendir hjúkrunarfræðingar til að mæta fjöldauppsögnum í stéttinni.