Hreindýraveiðitímabilið hófst í gær með veiði á hreintörfum. Búið var að fella 13 tarfa klukkan 16.00 í gær, að sögn Jóhanns G. Gunnarssonar, sérfræðings hjá Umhverfisstofnun.
Hann sagði að tarfarnir hefðu verið alveg þokkalega vel haldnir eða 80-90 kg þungir. Þeir eru þó ekki alveg farnir úr vetrarhárunum.
Tólf leiðsögumenn fóru með um 20 veiðimenn til veiða í gær. Veiðimenn þurftu frá að hverfa í Breiðdal vegna þoku. Flestir tarfarnir voru felldir á svæði 7, þ.e. í Djúpavogshreppi. Felldir voru tarfar í Búlandsdal og á hálsunum þar í kring. Þá féllu tveir tarfar rétt innan við Egilsstaði.