„Í mesta uppganginum gekk mjög illa að manna stöður hjúkrunarfræðinga og þá var m.a. farið út í að versla við íslenskar starfsmannaleigur auk þess sem fólk var fengið erlendis frá,“ segir Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum. Heilbrigðisráðherrann Kristján Þór Júlíusson viðraði hugmyndir um ráðningu erlendra hjúkrunarfræðinga í kvöldfréttum RÚV í gær.
Frétt mbl.is: Hjúkrunarfræðingar felldu samninginn
Hjúkrunarfræðingar höfnuðu í gær kjarasamningi við ríkið í atkvæðagreiðslu með miklum meirihluta og er deilan því aftur komin í hnút. Bjarni Benediktsson segir ljóst að málið fari nú til gerðardóms, eins og fram kemur í lögum á verkfallið, enda hafi samningar ekki náðst. Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, telur aftur á móti að þar sem samningur hafi verið undirritaður fyrir þann frest sem veittur er í lögunum séu forsendur fyrir skipun gerðardóms brostnar.
Frétt mbl.is: „Hugur fylgdi ekki máli“
Fyrir liggur að fjölmargir hjúkrunarfræðingar hafa sagt upp störfum, þ.á.m. 60% þeirra sem starfa á gjörgæslu í Fossvogi. Þannig óttast deildarstjórinn að loka þurfi breytist staðan ekki.
Frétt mbl.is: Lokun gjörgæslu yfirvofandi
Sigríður segir talsverðan þunga af faglegri þróun og kennslu á uppgangstímanum oft hafa fallið á fáa starfsmenn deildanna þar sem fólk frá starfsmannaleigunum beri allt aðrar skyldur gagnvart stofnuninni. „Þú kemur inn til að vinna þína vinnu og svo ferðu,“ segir Sigríður.
Hún segir erlent starfsfólk hafa komið frá ýmsum löndum og reynsluna misgóða. „Hér hafa t.d. verið hjúkrunarfræðingar frá Filippseyjum sem eru gríðarlega vel menntaðir og eftirsóttir um allan heim. Það var þá oftast fólk sem kom hingað til að vera í lengri tíma, læra málið o.s.frv. Þeir voru hins vegar ekki margir.“
Sigríður segir viðskipti við danskar starfsmannaleigur hins vegar ekki hafa gefist jafn vel, oft vegna tungumálaörðugleika. „Þá voru jafnvel dæmi um að við réðum inn fólk sem var sent heim á innan við viku,“ segir Sigríður.
Hún bendir á að mikilvægt sé að íslenskukunnátta hjúkrunarfræðinga sé góð og samskipti gangi vel fyrir sig. „Hjúkrunarfræðingar sinna sjúklingum allan sólarhringinn og þá reynir mikið á samskiptafærni við þá sem og aðstandendur. Það er mjög mikilvægt út frá öryggissjónarmiðum að þessi samskipti gangi snurðulaust.“ Þannig þurfa að sögn Sigríðar allir sem starfa á spítalanum að vera með íslenskt hjúkrunarleyfi.
Í 2.grein reglugerðar um menntun, réttindi og skyldur hjúkrunarfræðinga kemur m.a. fram að leyfi megi veita þeim sem lokið hafi BS prófi í hjúkrunarfræði við háskóla hérlendis, í ríki innan EES eða Sviss auk þess sem staðfesta má starfsleyfi frá framangreindum ríkjum. Auk þess má veita þeim starfsleyfi sem hafa lokið sambærilegu prófi frá menntastofnun utan EES eða Sviss sem viðurkennd er sem slík af hérlendum heilbrigðisyfirvöldum og heilbrigðisyfirvöldum þess ríkis þar sem námið var stundað.
Í 12.grein reglugerðarinnar kemur fram að heimilt sé að gera kröfu um að umsækjandi búi yfir kunnáttu í íslensku og hafi þekkingu á íslenskri heilbrigðislöggjöf og öðrum reglum sem nauðsynleg eru til starfsins, vegna öryggis og samskipta við sjúklinga.
Aðspurð segir Sigríður ráðningu erlendra hjúkrunarfræðinga ekki komna í sérstakt ferli eða vinnu innan spítalans. „Ég get ekki sagt það, en á Landspítalanum er fyrsta forgangsmál að halda í okkar góða fólk. Ef það gengur ekki eftir er augljóst að við þyrftum að auglýsa eftir hjúkrunarfræðingum, en við þyrftum að gera það bæði innan lands og utan,“ segir Sigríður. „Okkar fyrsta val er þó að manna starfsemina hér með okkar mjög svo hæfa fagfólki.“
Hún kveðst ávallt reyna að horfa björtum augum á lausn deilunnar. „Ég vinn út frá því að það séu möguleikar. Það hlýtur að vera keppikefli að ljúka þessu í sátt. Við verðum einhvern veginn að leysa deiluna og komast áfram, en allir sem koma að málinu verða að leggja sig fram um að það náist.“
Ekki náðist í Kristján Þór Júlíusson við vinnslu fréttarinnar.