Borgarstjóri hefur óskað eftir viðræðum við innanríkisráðuneytið um stofnun undirbúningsfélags um gerð flugvallar í Hvassahrauni á grundvelli niðurstaðna Rögnunefndarinnar. Í færslu á Facebook-síðu sinni segist borgarstjóri jafnframt hafa áréttað skyldur ríkisins um lokun NA/SV-flugbrautarinnar.
Bréfið lagði Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, fram á fundi borgarráðs Reykjavíkurborgar í dag. Auk stofnunar undirbúningsfélagsins vill hann ræða við innanríkisráðuneytið um hvernig rekstraröryggi verði tryggt á Reykjavíkurflugvelli á meðan unnið er að undirbúningi og gerð nýs flugvallar. Jafnframt hafi hann áréttað samningsbundnar skyldur ríkisins til að loka þriðju flugbrautinni á Reykjavíkurflugvelli í samræmi við samninga Reykjavíkurborgar og innanríkisráðuneytisins. Áhættumati og öryggisúttekt Isavia um þessa lokun hafi verið unnin að beiðni ráðherra. Henni sé nú lokið með staðfestingu Samgöngustofu.
Dagur segir að ljóst sé að Reykjavíkurborg geti skapað sér skaðabótaskyldu gagnvart uppbyggingaraðilum ef hún kalli ekki eftir efndum á þessum samningsskuldbindingum ríkisins.
„Það væri í mínum huga óásættanlegt með öllu að borgarbúar þyrftu að borga einhvers konar bætur vegna vanefnda ríkisins. Ég tek fram að ég hef alla tíð gengið út frá því að ríkið virði þessa samninga, enda sú regla að samningar standi einn af hornsteinum samfélagsins. Engum er það betur ljóst en sjálfu dómsmálaráðuneytinu,“ skrifar Dagur á Facebook-síðu sína.
Í tilefni af þessari frétt get ég upplýst að ég hef með bréfi til innanríkisráðherra óskað eftir viðræðum við ráðuneytið...
Posted by Dagur B. Eggertsson on Thursday, 16 July 2015