Hlýrra loft á Grænlandi en Norðurlandi

Helgarspáin fyrir Norðurlandið er ekki skapleg.
Helgarspáin fyrir Norðurlandið er ekki skapleg. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

„Það gætu alveg fallið nokkur snjókorn á hálendinu en það verður ekki snjókoma í byggð eða skíðað eftir helgina. Þetta er fullkalt fyrir miðjan júlí,“ segir Birta Líf Kristinsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, um helgarveðrið fyrir norðan og austan. „Ég öfunda þau ekki.“

Útlit er fyrir að hiti verði á bilinu þrjár til fimm gráður á Norður- og Norðausturlandi um helgina, með töluverðri úrkomu, einkum fyrir austan.

Veðurvefur mbl.is

„Það er frekar kalt en ekki það mikill vindur, það er bót í máli,“ segir Birta. „Það eru lægðir sem draga kalt loft úr norðri, þessi norðanátt verður oft ansi köld og bitnar oft verst á Norðurlandinu.“

Hlýjast verður hins vegar á sunnan- og vestanverðu landinu, þó svo að einhverjar síðdegisskúrir kunni að falla. Íbúar höfuðborgarsvæðisins sem ætla að elta veðrið þurfa því að sögn Birtu ekki að fara langt. „Það er miklu hlýrra loft yfir Grænlandi núna en hér,“ segir Birta. „Kalda loftið er hér og yfir Færeyjum.“

Umskipti frá síðasta sumri

Samkvæmt spám Veðurstofunnar er ekki búist við afgerandi hlýnun næstu 10 dagana, en veðurfræðingar Veðurstofunnar spá ekki lengra en fimm daga fram í tímann, því mjög margt getur haft áhrif á spár sem ná lengra fram í tímann en svo.

Síðasta sumar var annað upp á teningnum. Þá var yfirleitt bjart og þurrt á Norður- og Austurlandi, en skýjað og úrkoma á suðvesturhorninu. Nú er þessu öfugt farið. „Það var að vísu mjög hlýtt síðasta sumar þótt það hafi verið rigning sunnan- og vestanlands og víða met að falla. Síðustu tvö sumur voru frábær fyrir norðan og austan. Það virðist stundum gleymast,“ segir Birta.

Birta Líf Kristinsdóttir.
Birta Líf Kristinsdóttir. Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert