Þótt verðbólga sé enn lítil hafa verðbólguhorfur versnað miðað við spá Seðlabankans frá því í maí síðastliðnum, þar sem samið hefur verið um mun meiri launahækkanir en samrýmast verðstöðugleika til lengri tíma litið.
Þetta segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í nýrri skýrslu peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands til Alþingis sem fjallar um störf nefndarinnar á fyrri hluta ársins 2015.
Hann segir að í tengslum við kjarasamningana hafi ríkisstjórnin einnig kynnt aðgerðir sem munu auka ríkisútgjöld og draga úr skatttekjum og fela því að öðru óbreyttu í sér slökun á aðhaldi í ríkisfjármálum. Vísbendingar séu um öflugan vöxt eftirspurnar og hafa verðbólguvæntingar hækkað töluvert undanfarna mánuði.
Þessir þættir hafi valdið því að óhjákvæmilegt var að bregðast við versnandi verðbólguhorfum, en eins og kunnugt er ákvað peningastefnunefndin á júnífundi sínum að hækka vexti bankans um 0,5 prósentur. Vextir bankans höfðu þá verið óbreyttir frá áramótum í kjölfar þess að þeir voru lækkaðir um 0,75 prósentur á seinni hluta síðasta árs.
Fram kemur í skýrslunni að verðbólga hafi aukist frá því að síðasta skýrsla peningastefnunefndar var send Alþingi. Ársverðbólga miðað við vísitölu neysluverðs mældist 1,5% í júní síðastliðnum en var 0,8% í desember 2014. Hún hefur verið við eða undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans í sautján mánuði samfleytt.
„Megindrifkraftur verðbólgu að undanförnu hefur verið hækkun húsnæðisverðs. Hækkun húsnæðisliðarins skýrir því að miklu leyti aukna verðbólgu á fyrri hluta ársins en verð á almennri þjónustu hækkaði einnig nokkuð.
Án húsnæðisliðarins mældist 0,2% ársverðbólga í júní en á þann mælikvarða mældist verðlækkun milli ára á tímabilinu nóvember 2014 - apríl 2015. Verðbólga án húsnæðis hafði aukist nokkru minna frá áramótum en mæld verðbólga,“ segir í skýrslunni.
Skýrsla peningastefnunefndar til Alþingis fyrir fyrri hluta ársins 2015