Búið er að opna Fjallabaksleið nyrðri, Öldugilsleið, Álftavatnskrók, og veginn inn að Jökulheimum og reiknað er með að vegurinn í Fjörður opni eftir hádegi í dag. Verið er að opna hálendisvegi einn af öðrum þessa dagana en mikill snjór hefur verið á hálendinu.
Hálendisvegir hafa opnast óvenju seint í ár, einkum á sunnanverðu landinu, og enn eru nokkrir þeirra lokaðir. Mikilvægt er að árétta að vegirnir eru ekki aðeins ófærir almennri umferð heldur er í langflestum tilvikum beinlínis um akstursbann að ræða vegna hættu á skemmdum, bæði á vegum og ekki síður náttúru.