„Fríar hægðir betri en borgaðar“

Salernisaðstaða er við lónið á milli klukkan 9 og 19 …
Salernisaðstaða er við lónið á milli klukkan 9 og 19 alla daga. mbl.is/Ómar

„Þetta er bara dálítið ógeðslegt ef ég á að vera hreinskilin,“ segir Katrín Ósk Ásgeirsdóttir hjá Jökulsárlóni ehf, en hún segir ferðamenn á svæðinu gjarnan sinna kalli náttúrunnar víða um svæðið. Klósettaðstaða er á staðnum frá klukkan 9-19 að sögn Katrínar og er hún opin öllum sem fara þar um. „Hér er allavega ekkert viðskiptavinaskilti og ekki gerð krafa um að fólk sýni kvittun fyrir að hafa verslað neitt,“ segir Katrín.

Hún segir ekki leyfilegt að tjalda á staðnum, enda slík aðstaða ekki til staðar. „Þetta er hins vegar svo stórt svæði að hér eru alltaf einhverjir í tjöldum, a.m.k. tvö til þrjú tjöld á nóttu. Sumir koma og spyrja hvort það megi tjalda á svæðinu, en þeir fá auðvitað alltaf nei, enda ekkert tjaldstæði hér.“

Þrífa úrgang á morgnana

Hún segir vandræðin því helst koma upp seint á kvöldin og á nóttunni og starfsmenn þurfi ósjaldan að þrífa úrgang á morgnana eftir fólk sem hefur orðið brátt í brók að nóttu til.  

„Fólk er að gera þetta á bak við bílana, rúturnar, á húsin, miðasöluskúrinn o.s.frv.,“ segir Katrín, en ástandið er að hennar sögn einna verst í kringum starfsmannaskúr á staðnum. Aðspurð segir hún það gerast af og til að ferðamenn séu staðnir að verki, en oftast sé þó einfaldlega um þrif að ræða að morgni. „Maður skilur alveg að fólki verði mál, en þetta er bara svo ógeðslegt. Við tölum við þá sem við stöndum að verki, en þetta er auðvitað svolítið vandræðalegt og fólk kannski ekki mjög opið með hægðir sínar.“

Katrín segir tilfellum hafa fjölgað samhliða fjölgun ferðamanna.
Katrín segir tilfellum hafa fjölgað samhliða fjölgun ferðamanna. mbl.is/RAX

Klósettpappír fýkur um svæðið

Katrín bendir á að klósettpappírinn sé líklega hvimleiðasta vandamálið. „Pappírinn fýkur út um allt og gerir umhverfið svo ljótt.“

Hún segir fjölda tilfella hafa aukist talsvert í sumar, og eflaust haldist það eðlilega í hendur við fjölgun ferðamanna. „Það er einfaldlega mikill skortur á aðstöðu á ferðamannastöðum á landinu. Við höfum verið í sambandi við bæinn varðandi uppsetningu kamars, en það tekur sinn tíma. Við þurfum einnig að taka þátt í því, útvega hann o.s.frv.,“ segir Katrín, en bendir á að aðstaðan frá 9-19 eigi að duga þar sem ekki sé ætlast til að fólk eyði nótt á staðnum.

Hún segir ekki koma til greina að rukka inn á salernin. „Ef við gerðum það yrði staðan eflaust enn verri. Fríar hægðir eru betri en þær sem þú þarft að borga fyrir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert