„Ég er spenntur fyrir framhaldinu og hlakka mjög til,“ segir Helgi Grímsson, nýr sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. Helgi, sem hefur starfað sem skólastjóri til fjölda ára og hefur víðtæka reynslu af stefnumótun í skóla- og frístundastarfi, segir Reykjavíkurborg geta boðað nýja tíma í menntamálum.
„Það sem ég myndi vilja sjá væri að hlutverk borgarinnar í samstarfi við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu boði nýja tíma í menntamálum þar sem allir þessir kraftar sem koma saman á skóla- og frístundasviði vaxi og dafni,“ segir hann.
Helgi segist munu leggja áherslu á að skóla- og frístundasvið verði samhæfðara og samvirkara. „Mér er mjög umhugað um að þetta svið verði virkara og þessar starfsstöðvar samofnari. Þegar þessar stofnanir eru allar að vinna saman er einfaldlega hægt að koma miklu betur til móts við þarfir barnanna, nemendanna og heimilanna og það skiptir mjög miklu máli.“
Helgi hefur áður starfað sem skólaráðgjafi og forstöðumaður frístundamiðstöðvar auk þess sem hann var skólastjóri fyrst í Laugarnesskóla og nú síðast í Sjálandsskóla í Garðabæ sem hlaut íslensku menntaverðlaunin árið 2011. Helgi lauk meistaragráðu í stjórnun menntastofnana frá Háskóla Íslands 2012 og hefur einnig B.Ed. próf og diplómu í stjórnun menntastofnana frá Kennaraháskóla Íslands.
Hann segir gríðarlega margt hafa breyst á þeim tíma sem hann hefur starfað sem skólastjóri, eða í yfir tíu ár. „Fyrir tíu árum síðan var ekki til neitt sem hét snjallsími eða Facebook. Það eru svo gríðarlega örar breytingar í öllu umhverfi barna, ungmenna og fjölskyldna og því skiptir svo mikli máli að leik- og grunnskólinn sé á táberginu og stígi skref til framtíðar.“
Auk þess hafi viðhorf fólks til menntunar, bæði formlegrar og óformlegrar, breyst en hægt sé að stuðla að frekari samvinnu á milli þessa tveggja sviða. „Þetta eru kannski hlutir sem við höfum litið á sem aðskilda, en ég sé að það sé hægt að sameina þetta miklu meira,“ segir hann. „Borgin stendur fyrir svo ofboðslega margt í menntamálum og hefur svo mikið afl, ekki bara fyrir borgarbúa heldur fyrir landið allt.“
„Auðvitað eru ótal atriði sem þarf að vinna að. Við þurfum að finna leiðir til hagræðingar, við þurfum að stuðla að því að nýtt vinnumat grunnskólakennara hljóti farsælt brautargengi og vinna að því með kennarafélagi Reykjavíkur og skólastjórunum í Reykjavík svo skólastarfið vaxi og dafni á þessu ári,“ segir Helgi og bætir við að einnig sé mikilvægt að áform borgarinnar um læsi í sinni víðustu mynd nái fram að ganga.
Auk þess sé mikilvægt að áhersluatriði í starfsáætlun sem borgin hefur samþykkt fyrir skóla- og frístundasvið nái fram að ganga, og sköpuð sé samkennd og samúð um málefnin. „Nú er framundan hjá öllum starfsstöðvum að gera starfsáætlanir út frá þessari áætlun borgarinnar og það verður mikið verkefni að styðja við leikskóla, grunnskóla, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar í þeirri vegferð.“
Helgi segist hlakka mikið til að takast á við þau verkefni sem framundan eru. „Þó maður sé sviðsstjóri er það skóla- og frístundaráðið sem ræður stefnunni. En ég hlakka mikið til að takast á við þessi verkefni með þessu frábæra fólki sem er að vinna á sviðinu og öllum þeim starfssviðum sem heyra undir sviðið.“
Helgi tekur við starfinu þann 1. október þegar Ragnar Þorsteinsson lætur af störfum.
Frétt mbl.is: Helgi nýr sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs