Drykkfelldir munkar kveikja í húsum

Miðaldadagar eru haldnir á Gásum við Eyjafjörð um helgina. Hátíðin er árleg en þetta er í tólfta sinn sem hún fer fram og breytast Gásir alltaf í miðaldasvæði þriðju helgina í júlí. „Við reynum að endurskapa lífið eins og það gæti hafa verið í kringum 1300 á þessari hátíð,“ segir Skúli Gautason, framkvæmdastjóri Miðaldadaga, við mbl.is.

„Þá var landið rammkaþólskt og andrúmsloftið er eftir því. Hér eru munkar að rita Íslendingasögur en þeir eru helst til ölkærir og það vill brenna við að þeir fari ekki nógu varlega með eld. Þeir hafa óvart verið að kveikja í húsum hérna við ritun fornsagnanna.“

Það eru þó ekki bara drykkfelldir munkar sem kveikja í á svæðinu. „Það er ýmislegt annað í gangi hérna. Við erum að steypa kirkjuklukku úr bronsi og það er byrjað að smíða bát, sem er eingöngu smíðaður úr miðaldaverkfærum. Það er því nóg um að vera.“

Skúli segir veður ágæt og mætingu góða. „Það er allavega þurrt og bjart en reyndar er smá næðgingur en hann drepur engan. Norðanáttin er innan sársaukamarka. Stemningin er skemmtileg, hér eru margir gestir.“ Hátíðinni lýkur á morgun en þá er opið á svæðið frá 11-18.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert