Fangi á Litla-Hrauni handarbrotnaði í dag en ekki var mögulegt að flytja hann á sjúkrahús fyrr en rúmum klukkutíma síðar.
Annar fangi fullyrti í samtali við Vísi að fangaverðir hafi neitað að fara með manninn á sjúkrahús. Ástæðan hafi meðal annars verið sú að fanginn ætti sér sögu um agabrot innan veggja fangelsisins.
Páll Winkel fangelsismálastjóri segir í samtali við mbl.is að fangelsin séu ekki mönnuð þannig að hægt sé að flytja lítið slasaða menn eða menn sem eru ekki það alvarlega slasaðir strax á sjúkrahús. Það þurfi einfaldlega að kalla út mannskap til þess.
„Þegar skjólstæðingar okkar meiðast er haft samband við heilbrigðisstarfsfólk og það er metið í samráði við það hvort að kalla skuli til sjúkrabíls eða hvort fangaverðir flytji viðkomandi á heilsugæslu. Þetta er eitt af þeim málum,“ segir hann.
„Við bregðumst við eins hratt og við mögulega getum en þó ekki þannig að við skiljum fangelsið lítt mannað fangavörðum. Það gengur heldur ekki.“
Páll segir að þetta eigi jafnt við um öll fangelsin. Allir fangar sitji jafnframt við sama borð.
„Það eru fagmenn sem vinna í fangelsunum. Það eru mjög mörg alvarleg og erfið mál sem koma upp og ég veit að menn bregðast við þessum málum af fagmennsku, algjörlega ótengt hver á í hlut.“