Framhaldsskólakennari vann Mercedes-Benz

Frá vinstri: Magnús E. Kristjánsson, Jón Trausti Ólafsson og Anna …
Frá vinstri: Magnús E. Kristjánsson, Jón Trausti Ólafsson og Anna Rut Hjartardóttir. mbl.is/Kristinn

Dregið var í áskrifendahappdrætti Morgunblaðsins í gær. Upp kom nafn Hans Herbertssonar framhaldsskólakennara og hlaut hann í vinning glæsibifreið af gerðinni Mercedes-Benz B Class með fjórhjóladrifi og 7Gtronic sjálfskiptingu. Verðmæti vinningsins er tæpar sjö milljónir króna.

„Ég varð hissa, eins og eflaust flestir sem fá svona,“ sagði Hans þegar hann var spurður hvernig honum hefði orðið við tilkynninguna um vinninginn. Hann sagði að það væri skemmtilegur sumarglaðningur að vinna bílinn. Hans kvaðst ætla að nota helgina til að hugsa um hvernig hann hygðist nýta sér vinninginn en hann fær bílinn afhentan næstkomandi mánudag.

„Mig hefur alltaf dreymt um að eiga Benz. Kannski er þessi bíll þó í það minnsta. Við hjónin erum bæði í golfi og þurfum að koma fyrir tveimur golfkerrum, golfsettum og svona í bílnum. Við eigum eftir að tala við þá í Öskju um hvað við gerum.“

Aðspurður kvaðst Hans hafa verið áskrifandi að Morgunblaðinu í meira en 40 ár.

„Börnin mín trúðu mér ekkert þegar ég sagði þeim þetta og sögðu að þetta væri bara grín og vitleysa. En þau sögðu þó að ég ætti þetta hálfpartinn skilið því ég hef verið áskrifandi svo lengi,“ segir Hans og hlær.

Áskrifendahappdrættið var samstarfsverkefni Morgunblaðsins og Bílaumboðsins Öskju ehf., umboðsaðila Mercedes-Benz á Íslandi. Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju, ræsti forritið sem dró út nafn vinningshafans. Honum til aðstoðar voru Magnús E. Kristjánsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Árvakurs hf., útgefanda Morgunblaðsins, og Arna Rut Hjartardóttir, markaðsfulltrúi Öskju.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert