„Ég ætlaði einhvern tímann að fara undir fjóra tíma, en datt ekki í hug að það yrði núna.“ Þetta segir Þorbergur Ingi Jónsson, sem sigraði í Laugavegshlaupinu í dag á nýju brautarmeti og var fyrsti keppandinn til að fara hlaupið á undir fjórum klukkustundum. Segir hann að tíminn hafi komið sér gríðarlega á óvart, en upphaflega ætlaði hann að taka hlaupið sem létta æfingu fyrir annað fjallamaraþon í Ölpunum seinna í haust.
Þorbergur segist í samtali við mbl.is hafa strax verið þremur mínútum hægari á fyrstu drykkjarstöðinni en í fyrra. Hann hafi því ekki átt von á góðum tíma, en snjór var á stórum hluta fyrri hluta leiðarinnar. Veðurfar var aftur á móti eins og best var á kosið að sögn Þorbergs og vindurinn í bakið. „Þá var ég í betra standi en í fyrra,“ sagði hann, en tími Þorbergs í dag var 3:59:13.
Þorbergur býr á Akureyri og æfir reglulega fjallahlaup þar. Hann hefur lengi tekið þátt í brautarhlaupum, en hann segir að síðasta árið hafi hann fært sig nær alfarið í fjallahlaupin. Nú hleypur hann reglulega brekkur og fjöll og segist mikið fara í langa túra, eða 4-5 klukkustunda. „Upp og niður, upp og niður,“ segir hann um galdurinn við að koma sér í þetta form, en hann segir að hann hafi einnig verið líkamlega heill í langan tíma sem hjálpi mikið til.
Eins og fyrr segir kom tíminn Þorbergi nokkuð á óvart, en hann segist sjálfur hafa ætlað að taka hlaupið sem æfingu fyrir CCC fjallahlaupið í kringum Mont Blanc í ágúst. Aftur á móti var reyndur hlaupari frá Nýja Sjálandi þátttakandi í ár og það virðist hafa kveikt í keppnisskapinu hjá Þorbergi. „Ég vissi af honum og gaf því aðeins meira í þetta,“ segir hann og bætir við „Ég ætla nú ekki að fara að leika mér að tapa.“
Þorbergur segist reyna að borða venjulega fyrir hlaup sem þetta, en að bæta smá á sig. Svo meðan á hlaupunum stendur segir hann alveg nauðsynlegt að næra sig allan tímann. „Ég treð þessu í mig á hlaupunum,“ segir hann og á þar við orkugel, sykurdrykki og vatn. Segir hann mikilvægt fyrir sig að hafa orku allan tímann.
Þá segir hann reynsluna vera farna að skila sér talsvert, en þannig passar hann til dæmis upp á að taka ekki of mikið á upp brekkur, þannig að hann geti farið beint í gang þegar hann komist á hæsta punkt. Þetta gengur út á að halda púlsinum stöðugum segir hann og líkir sér í gríni við að vera einskonar dísiltrukk í þessum efnum, alltaf á jöfnum hraða.
Annað sem Þorbergur segir mikilvægt varðandi hlaupatæknina er að halda alltaf góðum skrefafjölda og taka lítil en ekki of stór og þung skref. „Þetta lærist með tímanum, gengur út á að spara orku eins mikið og maður getur. Það á ekkert að vera erfitt í þessu,“ segir hann.