Bústaðurinn þar sem gassprenging varð í í nótt var alelda þegar slökkvilið kom á staðinn og nánast að hruni kominn. Gunnar Eyjólfsson, varðstjóri slökkviliðsins á Hvolsvelli, segir í samtali við mbl.is að nánast ekkert hafi verið eftir af honum þegar komið var á staðinn, en þakið var rifið af bústaðnum til að slökkva í glæðum sem þar voru undir. Segir hann bústaðinn gjörónýtan, auk bifreiðar sem var við hlið bústaðarins. Bústaðurinn var við Seljavelli, austur af Hvolsvelli.
Gunnar segir að líklegasta ástæða sprengingarinnar hafi verið gasleki í eldunartækjum inn í bústaðnum. Tveir menn voru í bústaðnum og segir Gunnar að þeir hafi líklega ekki áttað sig á lekanum og svo reynt að kveikja á tækjunum með fyrrnefndum afleiðingum.
Báðir mennirnir sluppu að mestu ómeiddir, en Gunnar segir að annar þeirra hafi verið með smá brunasár. Þeir komust sjálfir út úr bústaðnum og létu vita. Slökkvistarf tók um einn og hálfan tíma að sögn Gunnars, en lögregla tók svo við vettvangi og er að rannsaka hann.
Frétt mbl.is: Sluppu ómeiddir frá gassprengingu