„Það felst mikill kraftur í því að selja vinnu sína eins og maður metur hana sjálfur.“ Þetta segir Sóley Ósk Geirsdóttir sem er ein af þeim hjúkrunarfræðingum sem ráðgera nú að stofna starfsmannaleigu í hjúkrun til þess að sinna íslenskum sjúkrastofnunum.
Sóley segir í Morgunblaðinu í dag að undirbúningsvinna sé komin á fullt skrið og myndarlegur hópur hafi safnast saman í kringum verkefnið. Margir hjúkrunarfræðingar hyggi á vinnu erlendis en þetta sé kostur fyrir þá sem vilji starfa hér áfram. Landspítalinn ætti að sjá góðan kost í því að ráða innlendan starfskraft í stað þess að borga flug og húsnæði fyrir útlendinga sem kæmu í staðinn.