Fann þjófana með hjálp Facebook

Hér sést parið aka á brott með vagninn.
Hér sést parið aka á brott með vagninn.

„Þarna kom Facebook sér vel að notum og sinnti störfum lögreglunnar,“ segir Hörður Garðarsson, sem lenti í þeirri óskemmtilegu reynslu fyrir helgi að tjaldvagni var stolið frá honum. Myndir af þjófnaðinum náðust á öryggismyndavél, og deildi Hörður þeim á Facebook í von um að finna þjófana. Viðbrögðin létu ekki á sér standa, og sólarhring síðar var hann búinn að endurheimta tjaldvagninn.

Hörður var nýkominn með seglið á tjaldvagninum úr viðgerð á fimmtudaginn sl. og hafði unnið að því að setja það aftur á vagninn við verkstæði sitt. Hann ákvað þó að geyma vagninn fyrir utan verkstæðið fram á föstudag þegar hann hugðist klára verkið. Þá var vagninn hins vegar horfinn.

„Ég fór þá í eftirlitsmyndavélarnar og sá þennan bíl koma um klukkan hálf fimm aðfaranótt föstudagsins,“ segir Hörður, en ökumaður bílsins og kona sem hann var með festu vagninn á bílinn og keyrðu á brott. „Ég ákvað því að setja þessar myndir á Facebook og bað fólk að hjálpa mér að bera kennsl á þessa stúlku og bílnúmerið.“

Vildu ekki skila vagninum nema hann tæki myndirnar út

Herði bárust hundruð ábendingar, og var færslunni deilt yfir tvö þúsund sinnum. Þremur klukkustundum eftir að hafa birt myndirnar var Hörður svo búinn að komast að því hverjir þjófarnir voru; ungt par í óreglu. 

„Ég fékk sendar slóðir á Facebook-síðurnar þeirra svo ég sendi þeim skilaboð og sagði að það væri best fyrir þau að skila vagninum hið fyrsta, og ekki seinna en um miðjan næsta dag, annars yrðu leiðindi út úr þessu,“ segir Hörður. 

Þjófarnir svöruðu um hæl, og sögðust ekki ætla að skila vagninum nema hann tæki myndirnar út af Facebook. „Þarna var því strax komin játning.“

Var falinn á Vatnsleysuströnd

Hörður heyrði ekki meira í fólkinu í tvær klukkustundir og ákvað því að fara sjálfur á stúfana og keyra að tveimur heimilisföngum sem hann hafði fengið uppgefin. „Þau voru ekki sjáanleg þar svo ég kom aftur heim og sendi þeim skilaboð og fékk þá svör um að það skipti ekki máli hvort ég komi heim til þeirra, því þau væru ekki heima.“

Stuttu síðar fékk hann skilaboð frá ungri stúlku sem býr á Vatnsleysuströnd sem bað hann að hringja í sig. „Hún sagði mér að þetta fólk hefði komið kvöldinu áður með tjaldvagn sem það sagði að frændi sinn hefði gefið sér, en eftir að þau fóru og skildu vagninn eftir sá hún færsluna á Facebook. Hún kíkti á númerið á vagninum sem reyndist vera það sama.“

Í kjölfarið fór Hörður á Vatnsleysuströnd og náði í vagninn. Segir hann vagninn hafa verið falinn á bakvið bílhræ, og hann hafi ekki verið opnaður. Hann segist þó halda að parið viti ekki enn að vagninn er kominn í hendur eiganda síns.

Ætlar að kæra fólkið

Hörður hafði samband við lögreglu eftir atvikið en var tjáð að ekkert væri hægt að gera fyrr en eftir helgi. Hann hyggst því fara á morgun og kæra fólkið. „Ég er ekki að fara fram á neinar skaðabætur, ég vil bara að þetta fólk fái sína refsingu svo það fari kannski að hugsa sinn gang.“

Hann kveðst þó hæstánægður með mátt Facebook, sem hafi verið mikill í þessu tilviki. „Ég hefði eflaust aldrei fundið vagninn ef ég hefði þurft að bíða fram á mánudag,“ segir hann. „En nú er ég kominn með vagninn í hendurnar og get farið í ferðalag um verslunarmannahelgina.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert