Gísli Marteinn aftur á skjáinn í haust

Gísli Marteinn snýr aftur á skjáinn í haust.
Gísli Marteinn snýr aftur á skjáinn í haust. mbl.is/Kristinn

Gísli Marteinn Baldursson snýr aftur á skjáinn í haust eftir ársfrí. Hann mun stjórna þætti á RÚV á föstudagskvöldum eftir kvöldfréttir en síðast stjórnaði hann þættinum Sunnudagsmorgunn. Síðasta vetur dvaldi Gísli í Harvard í Bandaríkjunum við nám. Kjarninn greindi fyrst frá málinu.

„Það má segja að það verði haldið áfram þar sem frá var horfið með Sunnudagsmorgunn. Þátturinn verður með svipuðu sniði, þetta verður fréttatengdur, menningar-, spjall- og viðtalsþáttur,“ segir Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri Sjónvarpsins, við mbl.is.

„Við fáum fólk í settið til að fara yfir fréttir vikunnar og tökum stöðuna á því hvað verður í boði í menningarlífinu, tónleikar, frumsýningar og slíkt. Tónlistar og skemmtiatriði verði í lok þáttar og einnig verða hefðbundin einstaklingsviðtöl. Eðlilega mun þátturinn þróast frá Sunnudagsmorgni vegna þess að það er alltaf munur á þáttum á föstudagskvöldum og þáttum í hádeginu á sunnudögum.“

Þátturinn verður í beinni útsendingu eftir kvöldfréttir á föstudögum og segir Skarphéðinn að hann verði eðlilegt framhald af fjórum Kastljósþáttum vikunnar. „ Á föstudegi erum við áfram í fréttatengdum gír en aðeins á léttari nótum.

Stefnan er sett að nýta beinu útsendingarnar til að líta við á frumsýningar eða tónleika og þá verður einhver með Gísla í þættinum. „Það liggur ekkert fyrir um það en líklega verður einhver sem verður sendur út af örkinni. “

Þátturinn hefur ekki hlotið nafn og Skarphéðinn hlær þegar blaðamaður spyr hvort nafnið verði ekki að vera twitter-vænt. „Jú, mjög líklega. Ef ég þekki Gísla rétt mun hann nota samfélagsmiðlana út í ystu æsar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert