Það jafnast fátt á við það að gæða sér á eðal-kókósbolluís sem er gerður úr mjólk úr kúnni sem stendur nánast við hliðina á manni. Þetta er hægt á bóndabænum Efstadal II í Bláskógabyggð. Bændurnir þar reka gistiheimili, veitingastað og ísbúðina Íshlöðuna meðfram venjulegum sveitastörfum. Fjölskyldan á bænum er með kýr og hesta auk þess að vera á fullu í ferðabransanum.
Það var margt um manninn þegar blaðamann bar að garði og notaleg stemning í Íshlöðunni, en þar má horfa á kýrnar í fjósinu í gegnum gler. Sölvi Arnarson, bóndasonur og bóndi í Efstadal, hefur í nógu að snúast en gefur sér tíma með blaðamanni.
Blaðamaður hefur sérstakan áhuga á ísnum, enda forfallinn ísáhugamaður frá blautu barnsbeini. „Þetta er heimalagaður ís. Við skiljum rjómann sjálf og notum mjólkina okkar og þetta er uppskrift sem var búin til fyrir okkur,“ segir hann. Sölvi nær í jarðarberin á næsta bæ og öll afurðin er algerlega náttúruleg. Þau selja einnig rabbabarasultu, skyr, fetaost og kjöt auk silungs frá Útey. „Konseptið er beint frá býli. Ég fer einu sinni í viku og næ í ferskt grænmeti hér í uppsveitunum, þetta er orðið ein stór matarkista. Ég fer í Reykholt, á Flúðir og í Laugarás og fæ allt sem ég vil þar, meðal annars jarðarber í Silfurtúni sem eru bara þau bestu sem finnast, rosalega sæt og góð. Jarðarberjaísinn er því það beinasta frá býli,“ segir hann, en í ísnum er einungis sykur, rjómi, bindiefni og svo það sem gefur bragð, eins og jarðarber.
Íshlaðan býður upp á spennandi bragðtegundir sem finnast ekki víða. Kókósbolluísinn hefur slegið í gegn. Oreoís og jarðarberja fylgja fast á hæla hans í vinsældum, segja þær systur Ingibjörg og Elínborg Anna Jóhannsdætur sem vinna í afgreiðslunni. Sölvi hefur ekki tölu á ísum sem renna ofan í gesti á degi hverjum. „Nei, við erum svo miklir sveitanördar að ég bara veit það ekki. Þetta gengur bara vel,“ segir hann og brosir. Þegar hann er inntur eftir hversu margir gestir koma þar á degi hverjum svarar hann: „Hellingur! Það er bara miklu fleira fólk en við reiknuðum með og við erum ekkert að markaðssetja okkur.“
Sölvi segir að bæði Íslendingum og erlendum ferðamönnum finnist það vera mikil upplifun að koma á bæinn og fá sér ís eða snæða á veitingastaðnum og vera í nánd við náttúruna og dýrin. „Það kom hérna kona um daginn sem fékk sér ís. Hún smakkaði ísinn og leit svo á beljurnar og hún varð frá sér numin,“ segir Sölvi. „Já, hún kiknaði í hnjánum, henni fannst ísinn svo góður, hún átti ekki von á að finnast hann svona góður og svo leit hún á beljurnar og fékk taugaveiklunarhláturskast,“ segir Kristín Ingunn Haraldsdóttir, kona Sölva, sem hefur sest hjá okkur. „Svo varð hún svo vandræðaleg yfir því hvað hún hefði orðið uppveðruð yfir þessu,“ segir hún og bætir við: „Mig langaði bara að faðma hana.“
Hægt er að fá tvenns konar ís í Íshlöðunni, ítalskan „gelato“ ís og svo venjulegan úr vél. „Við höfum verið að reyna að bæta í meiri rjóma til að fá fram þetta góða rjómabragð, en minni rjómi er í ísnum úr vélinni,“ segir Sölvi. Sölvi segir að kúabúið sé rekið af „mennskum róbótum“ þannig að vel sé haldið utan um hvaðan mjólkin kemur. „Gamli maðurinn og Árni Már sjá um fjósið þannig að það er hægt að fá sýni úr kúnum og við getum þá bara valið úr hvaða kú við búum til ísinn. Þannig getum við sagt fólki til dæmis að ísinn sem það sé að borða í dag sé úr hvítu beljunni. Snjólaug er mjólkurdrottningin okkar, hún er herforinginn,“ segir Sölvi og útskýrir að kýrnar gefi mismikla mjólk og fitustigið sé ekki alltaf eins.
Sölvi er sonur Bjargar og fóstursonur Sveinbjörns sem eru bændurnir á bænum, ásamt börnum sínum. Hann hefur búið í Efstadal II síðan hann var sjö ára og því ekta sveitadrengur. Þau byrjuðu í ferðaþjónustunni 1994 með hestaleigu en færðu svo út kvíarnar fyrir tveimur árum og eru nú með tíu herbergja hótel. Útlendingar eru þeir sem bóka herbergin en Íslendingar eru duglegir að koma að fá sér ís og mat. „Það sem hefur komið okkur mest á óvart er traffíkin af Íslendingum. Það hefur svoldið vantað hér, áður fyrr fór fólk í Eden og fékk sér ís og kíkti á apann en nú erum við komin með fullt af fólki sem er fastakúnnar,“ segir hann. Í ísbúðinni starfa heimasæturnar af næsta bæ, Laugardalshólum, þær Ingibjörg og Elínborg Anna. „Það er ekki bara maturinn sem er beint frá býli, heldur starfsfólkið líka,“ segir Sölvi og hlær.