Trampólín og fánastangir fóru á ferð og flug á Selfossi í morgun, en mikill vindur er í bænum, sem og víða á Suðurlandi.
Björgunarfélag Árborgar var kallað út um klukkan hálf tíu í morgun og fór björgunarsveitarfólk af stað til að sækja eða binda laust dót niður. Viðar Arason í svæðisstjórn á svæði 3 segir í samtali við mbl.is að björgunarsveitin hafi sinnt um fimm verkefnum í morgun.
„Það var orðið ansi hvasst hérna á Selfossi en vindurinn er nú að falla niður,“ segir hann.
Veðurstofan hefur varað við miklum vindi síðastliðna nótt og fram eftir deginum í dag á Suðurlandi.