Hjónin sem aka hringveginn á gamalli Farmall Cub-dráttarvél með kúrekakerru hafa fengið að kenna á kuldanum og lent í ýmsum ævintýrum. „Ég held að hitinn hafi aldrei farið upp fyrir níu stigin. Kaldast var á Möðrudalsöræfum, tvær gráður. Það skilur enginn í okkur að nenna þessu, í þessum kulda,“ segir Júlía Halldóra Gunnarsdóttir sem er á ferðinni með manni sínum, Helga Guðmundssyni.
Þau njóta ferðarinnar, þrátt fyrir kuldann. „Það er alls staðar tekið vel á móti okkur. Við höfum stundum farið heim á bæi og verið boðið í kaffi og mat. Á Hvanná á Jökuldal var okkur fylgt úr hlaði á gömlum Ferguson,“ segir Júlía í Morgunblaðinu í dag.
Þau hittu t.d. skemmtilega bræður á Norðvesturlandi. Þegar þau voru alveg að koma að Gauksmýri á leið til Hvammstanga mættu þau tveimur bræðrum að koma úr kaupstaðaferð. Þeir veifuðu þeir Júlíu og Helga og buðu þeim að koma í kot sitt sem ber nafnið Hippakot, en þar búa þeir bræðurnir á sumrin. Þeir vildu sýna þeim jeppa, árgerð 1947, sem þeir voru að gera upp. „Það hitti svo vel á að ég átti afmæli þann daginn. Annar bóndinn kallaði okkur inn í kaffi. Þá hafði hann bakað rjómapönnukökur handa okkur og hafði hellt upp á könnuna,“ segir Júlía. Hún spurði hvort hún gæti ekki fengið að hlaða símann sinn og fékk þá þau svör að ekkert rafmagn væri í Hippakoti. „En hann reddaði því. Hann hafði komið fyrir bílhleðslutæki í traktornum. Svo þegar við vorum búin að sitja þarna og drekka kaffi heyrðu þeir að ég ætti afmæli og þá kom einn þeirra með Baileys og segir: „Við verðum að skála við afmælisbarnið!“
Þau voru ekki jafn heppin í samskiptum við yfirvaldið. Þau hófu ferðina í Vogum á Vatnsleysuströnd 26. júní. Lögreglan á Suðurnesjum ráðlagði þeim að láta lögreglustjóraembættin vita þegar þau færu inn í þeirra umdæmi. Það gerðu þau þegar ekið var inn í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi. Júlía segir að það hafi ekki verið vel til fundið því lögreglan á Selfossi hafi ætlað að stoppa þau af vegna þess að Farmallinn væri bara skráður fyrir einn. Þá hættu þau að hringja á undan sér. Lögreglan á Hornafirði tók á móti þeim með sama hætti. Buðu lögreglumennirnir Júlíu far en hún afþakkaði það og sagðist myndu húkka sér far með einhverjum. Þau héldu sínu striki. Lögreglan skrifaði þau niður og sagði að þau gætu fengið sekt. Júlía sagði hugsanlegt að sektir hefðu hrúgast upp í heimabankanum en hún hefði ekki komist til að athuga það. Þau hjónin hefðu verið sammála um að borga bara sektirnar með brosi á vör, þetta væri þess virði. Hún tók fram að lögreglumennirnir hefðu verið afskaplega kurteisir.
Lögreglan á Akureyri tók á móti þeim í Fnjóskadal og bauð þau velkomin og vildi allt fyrir þau gera. Júlía gerir ráð fyrir því að þau komi heim í Vogana í dag, en vegna umferðarþungans vildu þau ekki koma í bæinn í gær.