Ferðamenn á förnum vegi könnuðust ekki við að hafa þurft að ganga örna sinna í náttúru Íslands þegar mbl.is spurðist fyrir um málið í dag. Þótti þeim aðstaðan almennt góð, en töldu sumir þó vanta nokkuð upp á salerni við vegi á leið um landið. Einn benti á að fátæklegur trjávöxtur á Íslandi gerði það nánast ómögulegt að sinna kalli náttúrunnar í náttúrunni.
Fregnir bárust af því í síðustu viku að ferðamenn gerðu reglulega þarfir sínar utan salerna við Gullfoss, en rekstrarstjóri Gullfoss Kaffi sagði frá því að ferðamenn væru reglulega „mígandi og skítandi“ við starfsmannahús staðarins.
Fjölmargar frásagnir bárust í kjölfarið, en þannig hafði starfsfólk við Jökulsárlón sömu sögu að segja og um helgina kvartaði Ingunn Snædal yfir því að ferðamönnum væri reglulega hleypt úr rútum til að gera þarfir sínar við bóndabæ foreldra hennar á Austurlandi.
Þá kviknaði í sinu við Bifröst í síðustu viku þegar erlendur hjólreiðamaður kveikti í salernispappír eftir að hafa gengið örna sinna í hrauninu.