Samningaviðræðum EFTA-ríkjanna innan EES og Evrópusambandsins um framlög til uppbyggingasjóðs EES fyrir tímabilið 1. maí 2014 til 30. apríl 2021 er nú lokið en viðræðurnar hafa staðið yfir í rúmlega ár þar sem mikið bar á milli aðila í upphafi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.
Niðurstaðan felur í sér að framlög til uppbyggingasjóðsins hækka um 11,3% sem er í takt við verðlagsbreytingar frá árinu 2009. Þá voru árlegir tollfrjálsir kvótar fyrir humar auknir úr 580 tonnum í 1000 tonn og fyrir fersk karfaflök úr 850 tonnum í 2000 tonn. Við bætist kvóti fyrir unna þorskalifur upp á 2500 tonn.
Verður gengið frá formlegum samningstextum í september og munu samningarnir að því búnu verða lagðir fyrir Alþingi í formi frumvarps til breytingar á lögum um evrópska efnahagssvæðið.