Bolli Héðinsson segir að tilefni undirskriftasöfnunar þjóðareignar hafi aldrei átt meira erindi en nú. „Það er kannski brýnna en nokkru sinni fyrr,“ segir Bolli, einn forsvarsmanna undirskriftasöfnunarinnar, þar sem skorað er á forsetann að vísa í þjóðaratkvæði lögum sem ráðstafa fiskveiðiauðlindum til lengri tíma en eins árs. Undirskriftirnar verða afhentar forseta á Bessastöðum klukkan 15:00 í dag.
Frétt mbl.is: Afhenda forsetanum 53.571 undirskrift
„Ef þú skoðar áskorunina þá er hvergi minnst á makríl. Þetta er almenn áskorun um að stoppa allt sem úthlutar fiskveiðiauðlindinni til lengri tíma en eins árs í senn. Þetta er í raun brýnna en nokkru sinni fyrr,“ segir hann.
Bolli segir í þessu felast áskorun til stjórnvalda um að „hysja nú upp um sig buxurnar í stjórnarskrárnefnd og vinna þar vinnuna sem þjóðin lýsir yfir að þurfi - að koma þessu ákvæði inn í stjórnarskrá,“ bætir hann við.
Hann segir áskorunina því liggja hjá forseta. „Ef þingið vill ekki hætta á að lenda í ágreiningi við forseta, ef forseti tekur vel í þetta, þá er eina leiðin að koma þessu í stjórnarskrá. Þá er búið að uppfylla þessa beiðni þjóðarinnar um að þetta verði tiltekið þar.“
Hann segir þá sem stóðu fyrir undirskriftasöfnuninni ekki hafa gert sér grein fyrir hver fjöldi undirskrifta yrði. „Þetta er framar okkar björtustu vonum,“ segir Bolli. „Þetta eru um 22% kosningabærra manna. Í drögum stjórnlagaráðs að breytingu á stjórnarskrá þar sem var rætt um hversu hátt hlutfall þyrfti til að almenningur gæti fengið frumvarp í þjóðaratkvæðagreiðslu var miðað við 10%.“ segir hann. „Þetta er ansi drjúgur fjöldi og manni finnst ekki hægt að horfa framhjá þessu.“