Ísland tekur á móti 50 flóttamönnum

Sýrlensks flóttafjölskylda.
Sýrlensks flóttafjölskylda. AFP

Íslensk stjórnvöld hafa lýst yfir vilja sínum við ráðherraráðið í Brussel um að taka á móti 50 flóttamönnum samtals á þessu og næsta ári. Þetta kemur fram í yfirlýsingu Velferðarráðuneytisins en þar segir að hún sé birt með fyrirvara um samþykki Alþingis fyrir fjármögnun verkefnisins.

Þar segir að samþykki Alþingi verkefnið muni Ísland verða þátttakandi í samvinnu Evrópuþjóða um móttöku kvótaflóttafólks. 

„Móttaka fólksins verður ákveðin í samráði við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, líkt og ávallt er gert þegar tekið er á móti kvótaflóttafólki, en viljinn stendur til þess að létta á miklum straumi flóttamanna til Grikklands og Ítalíu,“ segir í yfirlýsingunni.

Í yfirlýsingunni er vitnað beint í Eygló Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, þar sem hún segir vanda flóttafólks koma öllum við. „Þær þjóðir sem geta verða að axla ábyrgð og gera sitt til að létta á vandanum,“ segir Eygló samkvæmt yfirlýsingunni.

Hér á landi annast flóttamannanefnd undirbúning að móttöku kvótaflóttafólks í samvinnu við einstök sveitarfélög hverju sinni, auk þess sem Rauði kross Íslands kemur þar að.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert