Ferðamenn gista á bílastæði HR

Á myndinni má sjá hvar tveir ferðamenn hafa valið sér …
Á myndinni má sjá hvar tveir ferðamenn hafa valið sér náttstað. Ljósmynd/Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir birti meðfylgjandi mynd á Facebook-síðu sinn fyrr í dag. Á henni virðist sjást hvar tveir ferðamenn hafa valið sér náttstað síðustu nótt, en myndin er tekin á bílastæði við Háskólann í Reykjavík.

Í svari lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu við fyrirspurn mbl.is um hvort þessi háttsemi sé lögum samkvæm, segir að lögreglusamþykkt Reykjavíkurborgar fjalli um atvik sem þessi.

Þar segir: „Eigi má gista í tjöldum, húsbílum. hjólhýsum og tjaldvögnum á almannafæri í þéttbýli utan sérmerktra svæða.“ Þá er einnig vikið að því að enginn megi „án leyfis húsráðanda láta fyrir berast á lóðum hans eða landi.“

Þórir Ingvarsson rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að vilji borgarinnar sé skýr í þessum efnum. „Þótt að ekki sé endilega sett upp tjald þá er ekki heimilt að gista á stæðum borgarinnar heldur skal fólk leita til merktra tjaldstæða,“ segir Þórir og bætir við: „Lögreglan hefur þannig oft stuggað við þeim sem hreiðra um sig á svæðum borgarinnar með þessum hætti, enda eðlilegt að þeir leiti frekar á annað.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert