Fimm Íslendingar ranglega taldir af

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Styrmir

Frá árinu 1985 hafa fimm einstaklingar verið ranglega taldir af og færðir yfir á horfinnaskrá Þjóðskrár Íslands. Þetta segir Ingveldur Hafdís Karlsdóttir, deildarstjóri almannaskráningar hjá Þjóðskrá Íslands.

„Í einu tilfelli var maður úrskurðaður látinn skv. dómi á grundvelli laga um horfna menn nr. 44/1981 og þá ber Þjóðskrá Íslands að fella einstaklinginn af skrá, en í þessu tilfelli kom síðar í ljós að maðurinn reyndist ekki látinn,“ segir Ingveldur en hin fjögur tilfellin má rekja til mistaka við skráningu. 

Mistökin hafa einkum falist í því að rangur fjölskyldumeðlimur var tekinn af skrá eða að um alnafna var að ræða. „Í öllum tilfellum eru mistökin leiðrétt og einstaklingur færður aftur á þjóðskrá, við það fer kennitala einstaklingsins aftur í dreifingu til þeirra sem hafa samkvæmt samningi afnot af þjóðskrá,“ segir hún.

Að sögn Ingveldar er ekki vitað til þess að þessi mál hafi dregið dilk á eftir sér gagnvart þeim sem eiga í hlut „enda þjóðskráin í það mikilli dreifingu og kveðið skýrt á um í samningum að notendur hennar uppfæri skrár sínar reglulega,“ segir hún og bætir við að aldrei hefur þurft að gefa út vottorð eða annað slíkt til að staðfesta að einstaklingurinn sé á lífi gagnvart íslenskum lögaðilum heldur hefur leiðrétting í þjóðskrárkerfinu dugað til.

Ólíklegt að látnir séu enn skráðir á lífi

Í fréttaskýringaþættinum 60 Minutes var nýverið rætt við fjóra einstaklinga sem lentu á horfinnaskrá Almannatrygginga þar í landi. Einstaklingar sem enda á skránni eru þurrkaðir út í kerfum banka, skattsins, heilbrigðiskerfisins og stjórnvalda.

„Um tíma bjó ég í bílnum mínum. Ég gat ekki fengið íbúð. Ég átti debet kort, sem að sjálfsögðu, virkuðu ekki. Ég notaði eitt án þess að vita afleiðingarnar, og ég var handtekin og færð í yfirheyrslu af því að þeir héldu að ég væri auðkennisþjófur," sagði Judy Rivers, einn viðmælenda 60 Minutes sem var færð yfir á horfinnaskrá.

En í Bandaríkjunum er vandinn ekki einskorðaður við lifandi einstaklinga sem eru færðir til grafar í bókhaldi vegna mistaka, heldur eru margir sem svíkja út bætur með því að tilkynna ekki um andlát t.d. aðstandanda sinna og þiggja svikararnir bæturnar oft til fleiri ára.

 „Við fundum út að horfinnaskrá er oft á tíðum mjög gölluð. Margir þeirra látnu eru ekki færðir yfir á listann og kostar það skattgreiðendur milljarða dala vegna svindlara sem þiggja bætur þeirra látnu,“ sagði Scott Pelley í fréttaskýringaþættinum. 

Er mögulegt að slíkt komi fyrir á Íslandi?

Ingveldur segir skráðar upplýsingar í þjóðskrá byggja alfarið á gögnum sem henni berast lögum samkvæmt frá þar til bærum stjórnvöldum eða sem stofnunin aflar sér sbr. heimild sem stofnunin hefur. 

„Af þessu leiðir að ef Þjóðskrá Íslands fær ekki upplýsingar um andlát þá er einstaklingur ekki tekinn af skrá, það er því ávallt sá möguleiki fyrir hendi að einstaklingur sé ranglega skráður á lífi. Í tilvikum sem einstaklingur fellur frá hér á landi er afar ólíklegt að hann sé ranglega skráður á lífi enda ferlið fastmótað í lög. Hins vegar eru líkur á einstaklingar sem skráðir eru í þjóðskrá og eru búsettir erlendis séu ranglega skráðir á lífi berist Þjóðskrá Íslands ekki gögn sem staðfesta andlát,“ segir hún.

Læknir staðfestir andlát með útgáfu dánarvottorðs

Ingveldur Hafdís segir að í tilvikum þar sem einstaklingur fellur frá hér á landi eða er með lögheimili á Íslandi þá staðfestir læknir andlát með útgáfu dánarvottorðs. Eftir útgáfu dánarvottorðs afhendir læknir venslamanni dánarvottorð sem ber að afhenda það sýslumanni í því umdæmi sem hinn látni átti lögheimili.

„Sýslumaður sendir dánarvottorðið áfram til Þjóðskrár Íslands og á grundvelli þess er einstaklingurinn skráður látinn í þjóðskrárkerfið þ.e. hann er felldur af þjóðskrá yfir á svokallaða horfinnaskrá. Þjóðskrá Íslands sendir síðan dánarvottorðið áfram til Landlæknisembættisins,“ segir hún en Landlæknisembættið sér um skráningu í dánarmeinaskrá.

„Í tilvikum þar sem einstaklingar sem skráðir eru í þjóðskrá látast erlendis þá eru þeir felldir af þjóðskrá yfir á horfinnaskrá á grundvelli erlendra dánarvottorða sem ýmist berast frá ættingjum eða erlendum stjórnvöldum,“ segir Ingveldur.

Ingveldur Hafdís Karlsdóttir, deildarstjóri almannaskráningar hjá Þjóðskrá Íslands.
Ingveldur Hafdís Karlsdóttir, deildarstjóri almannaskráningar hjá Þjóðskrá Íslands. Ljósmynd/Inga Dís
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert