Vala Valtýsdóttir, sviðsstjóri skatta- og lögfræðisviðs Deloitte, segir að breytingar sem gerðar hafa verið á virðisaukaskattsskyldu ferðaþjónustufyrirtækja muni í ákveðnum tilvikum skila því að viðkomandi fyrirtæki muni fá meira úr ríkissjóði en þau inna af hendi í formi virðisaukaskatts.
„Þeir aðilar sem selja út þjónustu sem ber 11% virðisaukaskatt en greiða 24% virðisauka af aðföngum sínum eru í raun og veru að fá dálítinn ríkisstyrk,“ segir hún í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Með breytingum á virðisaukaskattslögum munu nú ýmis fyrirtæki í ferðaþjónustu á borð við þau sem bjóða upp á skemmtisiglingar, hvalaskoðun og aðra afþreyingu af því tagi, rétt eins og heilsulindir á borð við Jarðböðin á Mývatni og Bláa lónið, þurfa að innheimta útskatt af þjónustu sinni en á sama tíma munu þau, ólíkt því sem áður var, hafa möguleika til frádráttar gagnvart þeim innskatti sem þau hafa greitt af aðföngum sínum.