Hjúkrunarráð Landspítala varar við því að litið sé á hjúkrunarleigur sem lausn á mönnunarvanda hjúkrunarfræðinga innan heilbrigðiskerfisins. „Slíkar lausnir eru neyðarúrræði svo hægt sé að veita grunn neyðarþjónustu, líkt og veitt er í verkfalli. Slík þróun myndi leiða af sér verulega faglega afturför, ógna þeirri uppbyggingu sem þegar hefur átt sér stað og hefta áframhaldandi uppbyggingu í íslenskri heilbrigðisþjónustu.“
Þetta kemur fram í ályktun hjúkrunarráðs Landspítalans.
Stofnun hjúkrunarleiga kann að vera lausn til að halda hjúkrunarfræðingum og þar af leiðandi reynslu og þekkingu innan Landspítala í umönnun sjúklinga, að mati hjúkrunarráðsins. „Reynsla okkar á Landspítala og þeirra sem þekkja til erlendis sýnir að faglegar skyldur leigðra hjúkrunarfræðinga gagnvart stofnuninni eru ekki þær sömu og starfsmanna spítalans. Fagleg framþróun á þjónustu við sjúklinga og aðstandendur þeirra, hagræðing í rekstri, uppbygging á starfsemi, efling þverfaglegrar teymisvinnu, kennsla og fræðsla situr á hakanum. Stjórnendur Landspítala hafa þá minna um starfsþróun og símenntun hjúkrunarfræðinganna að segja. Sérhæfing og samfella í hjúkrun sjúklingahópa er gífurlega mikilvæg en reynslan sannar að hún fæst ekki ef mönnun fagaðilanna byggir á leigðum starfsafla,“ segir í ályktuninni.
„Starfsánægja hjúkrunarfræðinga og tryggð þeirra við stofnunina og skjólstæðinga hennar er það sem ríkisstjórnin á að leggja allt sitt kapp í að varðveita, hvort sem um ræðir Landspítala, spítala landsbyggðarinnar, heilsugæslu eða heimahjúkrun. Ef til hjúkrunarleiga kæmi gæti verið verulega erfitt, jafnvel ógerlegt að snúa til baka.“
Hjúkrunarráð skorar á stjórnvöld að ná sáttum í launabaráttu hjúkrunarfræðinga svo ekki þurfi að koma til þessara skammtímalausna sem gætu skaðað heilbrigðiskerfið umtalsvert.