Bankastjórinn „húskarl en ekki húsbóndi“

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. mbl.is/Golli

„Sú hugmynd að reisa musteri yfir [Lands]bankann á lóð í Austurhöfninni og viðbrögð bankastjórans við gagnrýni á hana bendir til þess að hrokinn og skammsýnin sem réðu ríkjum í bönkunum fyrir hrun hafi náð yfirhöndinni í Landsbankanum,“ skrifar Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í grein í Morgunblaðinu í dag. Í greininni fjallar Kári um þá umdeildu ákvörðun Landsbankans að byggja nýjar höfuðstöðvar fyrir átta milljarða króna „á mest áberandi stað í lýðveldinu“ og viðbrögð bankastjórans við gagnrýni á þeir hugmyndir. Það má vel vera að ef horft er til langs tíma væri rekstrarlega hagkvæmt fyrir bankann að reisa sér nýtt hús núna en það væri bæði sársaukafullt og skemmandi fyrir þjóðarsálina.“

Kári bendir á að það beri að hafa í huga að meirihluti bankastarfsemi í dag á sér stað á rafrænu formi og er óháð staðsetningu þannig að banki á auðveldara með að vera í mörgum plássum en flest önnur starfsemi. „Það kórónar svo skömmina að ætla sér að reisa húsið á áberandi stað í miðborg Reykjavíkur þannig að það sé varla hægt í bæinn að koma án þess að vera minntur á hrokann og óhófið og heimskuna sem flestir landsmanna tengja við bankana. Hlutverk bankanna í dag er að fara með ströndum og vinna sér hægt og hægt traust landsmanna en ekki að hrekkja þá með musterisbyggingum sem hlytu að verða sjávarsalt í hrunsárin.“

Kári rifjar upp að hið óbyggða hús Landsbankans sé ekki eina umdeilda húsið í Íslandssögunni. Deilurnar um Hallgrímskirkju séu m.a. minnisstæðar. „Lögðu þar margir orð í belg og fannst sumum ljóst að efst uppi á Skólavörðuholtinu yrði hún okkur til háborinnar skammar og þar á meðal var afabróðir fjármála-ráðherrans okkar. Merkilegast fannst mér samt innlegg Jóhannesar Kjarval í þá deilu en hann sendi opið bréf til Alþingis sem mig minnir að hafi birst á þriðju síðu Morgunblaðsins neðanverðri. Þar lagði hann til að Alþingi veitti því fé til byggingarinnar að það væri hægt að ljúka henni svo smekkvísir menn gætu ákveðið hvort hún ætti að standa eða það ætti að rífa hana í hvelli,“ skrifar Kári.

„Meira en nóg af þessari helvítis vitleysu“

„Nú vil ég leggja fram eftirfarandi tillögu til hæstvirts Alþingis og geri mér grein fyrir því að í henni er margt fengið að láni frá Kjarval: Sjáið þið til þess að húskarl ykkar fái frið til þess að reisa húsið mikla við Austurhöfnina. Dreifið um húsið þrjúhundruð þúsund sleggjum og hvetjið landsmenn alla til þess að koma og brjóta það niður steinmola fyrir steinmola til þess að tjá reiði sína og fyrirlitningu á hrokanum og óhófinu sem einkenndu bankana fyrir hrun og skutu síðan upp kollinum rétt sem snöggvast í Landsbankanum árið 2015. Ég legg einnig til að þetta húsbrot verði fest á filmu sem listgjörningur og hún verði síðan send sem framlag Íslands til næsta Feneyjatvíærings undir heitinu: Meira en nóg af þessari helvítis vitleysu,“ skrifar Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar í Morgunblaðið í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert