Hótelbruni á Siglufirði

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. Ljósmynd/Sigló Hótel

Eldur kom upp í eldhúsi Sigló Hótel sem byggt er út í smábátahöfnina á Siglufirði eftir hádegi í dag. Einn var fluttur á Sjúkrahúsið á Akureyri, en greiðlega gekk að slökkva eldinn. 

„Það urðu miklar skemmdir en þetta var þó enginn stórbruni,“ segir Ámundi Gunnarsson, slökkviliðsstjóri Fjallabyggðar, í samtali við mbl.is. Aðspurður segir hann talsverðar reykskemmdir vera í eldhúsi hótelsins, þar sem eldurinn kom upp.

„Það þarf að þrífa þetta vel, mála og skipta um klæðningu í lofti svo fátt eitt sé nefnt. Það er því ljóst að þetta er mikið tjón,“ segir hann.

Áður en slökkvilið mætti á vettvang segir Ámundi starfsmann hótelsins hafa gert tilraun til þess að slökkva eldinn. Var sá staddur inni í eldhúsinu þegar slökkviliðsmenn bar að.

Tekin var ákvörðun um að senda starfsmanninn á Sjúkrahúsið á Akureyri, en talið er að hann hafi fengið vott af reykeitrun auk þess sem Ámundi segir manninn hafa skorið sig lítillega.

Eftir að búið var að slökkva eldinn var hafist handa við að reykræsta hótelið. Upptök brunans eru að sögn Ámunda óljós en lögreglan vinnur að rannsókn málsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert