„Rætnar ásakanir og rangfærslur“

Höfuðstöðvar MS við Bitruháls.
Höfuðstöðvar MS við Bitruháls. mbl.is/Árni Sæberg

Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar, ásakar Ólaf Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, um vítaverð ummæli í fréttatilkynningu þar sem fjallað var um áskorun FA til Samkeppniseftirlitsins vegna samkeppnismáls Mjólkurbúsins Kú gegn Mjólkursamsölunni.

Í tilkynningunni segir Ólafur m.a. að óþolandi „að markaðsráðandi fyrirtæki komist upp með að draga málsmeðferð á langinn með því að leyna gögnum fyrir Sam­keppnis­eft­ir­lit­inu eins og MS gerði í þessu máli.“

Einnig: „Smærri keppi­naut­ar hafa ein­fald­lega ekki bol­magn til að bíða niðurstaðna sam­keppn­is­yf­ir­valda mánuðum og jafn­vel árum sam­an.“

Í fréttatilkynningu frá Mjólkursamsölunni sem Ari Edwald sendi fjölmiðlum í dag, segir að málflutningur FA og vítaverð ummæli Ólafs séu þess eðlis að þau geti staðið óleiðrétt.

Ari segir m.a. engan ágreining um að ákvarðanir í stjórnsýslumálum skuli teknar eins fljótt og unnt er og harmar langan málsmeðferðartíma hjá Samkeppniseftirlitinu. Hann segir aldrei hafa staðið á því að Mjólkursamsalann hafi veitt þær upplýsingar sem efltirlitið hafi óskað eftir.

„Mjólkursamsalan hefur engum gögnum leynt. Áður hefur verið farið yfir þetta með framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda í Kastljósi RÚV. Enn er þessu þó haldið fram, gegn betri vitund að þessu sinni. Aftur skal því upplýst að frá öndverðu var Samkeppniseftirlitið upplýst um allt samstarf Mjólkursamsölunnar, Kaupfélags Skagfirðinga og Mjólku. Þrátt fyrir lögbundna rannsóknarskyldu Samkeppniseftirlitsins óskaði stjórnvaldið hins vegar aldrei eftir samningi þessara aðila þar að lútandi. Vegna fyrri mála stóðu forsvarsmenn Mjólkursamsölunnar raunar í þeirri trú að Samkeppnis-eftirlitið hefði nefndan samning undir höndum. Svo reyndist ekki vera. Áfrýjunarnefnd samkeppnis-mála gerði athugasemd við þennan ágalla á rannsókn Samkeppnis-eftirlitsins og ógilti ákvörðun þess. Enga umfjöllun er að finna í forsendum áfrýjunarnefndar þess efnis að Mjólkursamsalan hafi leynt gögnum við rannsókn málsins, enda væri það ekki sannleikanum samkvæmt,“ segir í tilkynningunni frá MS.

Ari bendir einnig á að Verðlagsnefnd búvara sé sjálfstæð nefnd og ákvarðanir hennar séu ekki ákvarðanir Mjólkursamsölunnar. Þá hafi löng málsmeðfer ekki áhrif á rekstur Mjólkurbúsins KÚ og því sé ekki verið að „draga lífið“ úr smáum keppinauti líkt og gefið sé til kynna í fréttatilkynningu FA.

„Í dag virðist það líklegt til vinsælda að tala niður íslenskan landbúnað og það samstarf sem bændur hafa byggt upp um vinnslu og sölu á mjólkurafurðum. Við það verður að una. Í þeirri umræðu eins og annarri verður þó að styðjast við staðreyndir. Um annað er ekki beðið,“ segir í niðurlagi tilkynningar MS.

Frétt mbl.is: Rekur á eftir Samkeppniseftirlitinu

Ari Edwald.
Ari Edwald. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson
Ólafur Stephensen.
Ólafur Stephensen.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert