Sjö albanskir hælisleitendur voru fluttir aftur til Albaníu með leiguflugi frá Íslandi á miðvikudagskvöld. Með í för voru þrettán íslenskir lögreglumenn frá þremur lögregluembættum til að sjá til þess að hópurinn kæmist á leiðarenda.
Þetta kemur fram í frétt Fréttablaðsins í dag. Segir þar að á meðal hælisleitendanna hafi verið þriggja manna fjölskylda.
Einum þeirra sem voru fluttir úr landi á miðvikudag var birt niðurstaða kærunefndar útlendingamála fyrr um daginn. Var hann handtekinn því lögreglan treysti því ekki að hann myndi skila sér í flugið.
Frávísunin og brottflutningurinn voru unnin í samstarfi við FRONTEX, landamærastofnun Evrópusambandsins. Greiddi FRONTEX allan kostnað af því að leigja flugvél fyrir hópinn auk kostnaðar við hótelgistingu lögreglumannanna erlendis.